sunnudagur, 4. desember 2011

Nýjar siðareglur EÞM

Evrópuþingið hefur samþykkt siðareglur fyrir Evrópuþingmenn, sem ætlað er að sporna gegn hagsmunaárekstrum. Forseti þingsins, Jerzy Buzek, sagði ánægjulegt að taka upp fyrstu siðareglur fyrir þingmenn ESB á þeim degi, er tvö ár væru liðin frá gildistöku Lissabon sáttmálans. Meiri völdum fylgdi meiri ábyrgð.
Gagnsæi er meginregla í siðareglunum. EÞM munu þurfa að skýra frá störfum utan þingsins sem þeir frá greitt fyrir og öðrum þeim atriðum sem gætu leitt til hagsmunaárekstra. Reglurnar banna að EÞM taki við greiðslum eða annarri umbun í skiptum fyrir að hafa áhrif á ákvarðanir Evrópuþingsins. Þá eru skýrar reglur um viðtöku gjafa og um stöðu fyrrum EÞM sem vinna fyrir hagsmunasamtök.

mánudagur, 28. nóvember 2011

Eftirlit með netinu ólöglegt

Evrópudómstóllinn hefur útskurðað á þenn veg að aðildarlönd ESB megi ekki koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal efnis af internetinu sem varið er af höfundarrétti, með því að koma fyrir síum.
Dómstóll í Belgíu hafði beðið um álit Evrópudómstólsins á álitaefni, sem reis í kjölfar þess að belgískt hýsingarfyrirtæki var krafið um að koma fyrir síum til að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal viðskiptavina sinna. Úrskurður Evrópudómstólsins er talinn setja sögulegt fordæmi, sem muni hafa áhrif á löggjöf aðildarríkja ESB.
Úrskurðurinn torveldar verndun höfundarréttar á netinu, en er að sama skapi sigur fyrir þá sem vilja frjáls netsamskipti sem og hýsingaraðila, sem munu ekki þurfa að leggja út í kostnað við að hafa eftirlit með veraldarvefnum.
EurActiv

sunnudagur, 30. október 2011

Efnahagsmálastjóri fær aukin völd

  Efnahagsmálastjóri framkvæmdastjórnar ESB, Olli Rehn, fær aukin völd til að hafa eftirlit með ríkisfjármálastefnu aðildarríkjanna og umsjón með málefnum evrunnar, en stefnt er að aukinni miðstýringu frá Brussel í efnahagsmálum.
  Þetta er meðal þess sem samstaða náðist um á fundi leiðtogaráðs ESB í vikunni. Á fundinum var samþykktur rammi um endurfjármögnun banka, tap einkageira á skuldum Grikklands og stækkun björgunarsjóðs vegna evrunnar. Samþykkt var viljayfirlýsing um að efla hlutverk viðeigandi málefnastjóra við nánara eftirlit og aukna eftirfylgni með evrusvæðinu. Enn er óljóst hvað felst nákvæmlega í þessum auknum völdum, en talið er víst að efnahagsmálastjóri geti skorist í leikinn brjóti aðildarríki reglur um skuldir og fjárlagahalla.

föstudagur, 21. október 2011

Búlgaría og Ítalía toppa fjársvika rannsóknarlista ESB

  Búlgaría og Ítalía eru þau aðildarlönd, sem voru með hæsta málafjöldann hjá OLAF, rannsóknarskrifstofu fjársvika hjá ESB, fyrir árið 2010. Í skýrslu OLAF segir að uppspretta upplýsinga um möguleg fjársvik tengist fáeinum aðildarríkjum. Flestar rannsóknir snerta stofnanir ESB (139) og landbúnaðargeirann (117).
  Á árinu 2010 hafði OLAF 419 mál til meðferðar, þar af var 81 mál tengt Búlgaríu, 41 tengt Ítalíu og 37 tengd Belgíu. Belgía sker sig úr að því leyti að þar er að finna flestar stofnanir ESB. Búlgaría vermdi einnig toppsæti listans á síðasta ári. Mál tengd Svíþjóð voru 3, 1 tengt Finnlandi og ekkert tengt Danmörku.

fimmtudagur, 20. október 2011

Ný samgönguáætlun - Tengjum Evrópu

  Forseti framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso, kynnti í gær tillögu um að safna 50 milljörðum evra vegna verkefna á sviði samgangna, orku og fjarskipta  í Evrópu, með svokölluðum "verkefna skuldabréfum" (project bonds). Áætlunin nefnist Tengjum Evrópu og mun vera á fjárhagsáætlun ESB 2014-2020. Barroso segir áætlunina skapa hagvöxt og störf þegar til framtíðar er litið. Hann sagði mikilvægt að ESB leggi sitt af mörkum við að byggja upp vegi, járnbrautateina, leiðslur og strengi sem séu mikilvæg íbúum og fyrirtækjum í Evrópu.

miðvikudagur, 19. október 2011

Fáir bjóða leyfislausum innflytjendum læknisaðstoð

  Innflytjendur án landvistar-, búsetu- eða atvinnuleysis þurfa að greiða fyrir læknisþjónustu í flestum aðildarríkjum ESB og það getur teflt lífi þeirra í hættu. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu frá Mannréttindastofu Evrópu. Þetta fólk er í áhættuhópi sem oft býr við slæmar vinnu- eða húsnæðisaðstæður. Innflytjendur óttast brottvísun úr landi leiti þeir sér læknisaðstoðar á spítala.

sunnudagur, 16. október 2011

EÞM vilja rannsóknarheimildir

  Evrópuþingið vinnur nú að því að öðlast auknar rannsóknarheimildir til að kalla til málefnastjóra úr framkvæmdastjórn ESB, embættismenn og stjórnmálamenn aðildarríkja til að svara spurningum er lúta að brotum á evrópskri löggjöf.

laugardagur, 15. október 2011

Gagnrýna landbúnaðarumbætur

  Nokkurrar óánægju gætir meðal þingmannahópa innan Evrópuþingsins og meðal hagsmunaaðila með nýjar landbúnaðarumbætur sem kynntar voru í vikunni. Bretland hefur lýst því yfir að ekki sé um róttækar umbætur að ræða og Frakkland segir umhverfisvæna hluta reglnanna of flókinn og endurspegli ekki efnahagslegan raunveruleika. Hagsmunahópur bænda, Copa-Cogeca, segir tillögurnar of bitlausar til þess að auka arð og framleiðni í matvælaframleiðslu. Þá hafa umhverfissamtök lýst yfir óánægju með umhverfisvænar aðgerðir tillagnanna, sem þau segja ganga of skammt. Samtök ungra bænda eru þó fremur ánægð með tillögurnar, auk bænda í dreifbýli sem fá hærri styrki.

föstudagur, 14. október 2011

Tekist á um breytingar á stofnsáttmála

  Átakalínur eru teknar að skýrast á milli þeirra sem styðja breytingar á stofnsáttmála Evrópusambandsins til að styrkja evrusvæðið og þeirra sem eru því andsnúnir, í aðdraganda leiðtogafundar ESB síðar í mánuðnum. Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, Joaquín Almunia, sem einnig er samkeppnismálastjóri, hefur nú lýst sig andvígan slíkum breytingum. Þetta gengur þvert á yfirýsingar forseta framkvæmdastjórnarinnar, José Manuel Barroso, um að hann væri opinn fyrir breytingum á sáttmálanum.

fimmtudagur, 13. október 2011

Vegvísir ESB út úr kreppunni

  Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jose Manuel Barroso, hefur kynnt áætlun í fimm liðum til lausnar á efnahagsvanda Evrópusambandsins.
  Barroso sagði á Evrópuþinginu að nauðsynlegt væri að leysa skuldavanda einstakra ríkja með samræmdri áætlun og styrkja bankana, þar sem tengsl væri á milli þessarra þátta. Hann kallaði eftir stuðningi leiðtoga við þessa björgunaráætlun, sem tekin verður fyrir til afgreiðslu á leiðtogafundi í Brussel þann 23. október n.k.

miðvikudagur, 12. október 2011

Reding: Ný kaupalög svar við kreppunni

  Ný kaupalög er fjalla um sölu vöru og þjónustu á milli landa, verða kynnt í dag af dómsmálastjóra ESB, Viviane Reding, sem segir reglurnar framfaraskref við lausn efnahagsvanda Evrópusambandsins. Hún segir reglurnar örva viðskipti, auka hagvöxt og atvinnu. Ýmis samtök atvinnurekenda berjast gegn tillögunum, sem þau segja að verði smáfyrirtækjum fjötur um fót.
  Markmið reglnanna er að örva sölu vöru og þjónustu á milli landamæra með því að skýra innheimtureglur sem gilda í milliríkjaviðskiptum. Fyrirtæki geti lágmarkað lögfræðikostnað við að setja sig inn í 27 mismunandi lagaramma með því að velja þann 28. sem ESB setur.

Landbúnaðarstyrkir færast austar innan ESB

  Bændur í Evrópulöndum eins og Frakklandi gætu átt von á að styrkir til þeirra minnki um allt að 7%, þar sem fjármagni verður í auknu mæli beint til Mið- og Austur-Evrópuríkja. Þetta segir málefnastjóri landbúnaðarmála og dreifbýlisþróunar í ESB, Dacian Cioloş, í samtali við fréttavefinn EurActiv um endurbætur á hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB fyrir árin 2014-2020. Búist er við óbreyttu hlutfalli fjár til landbúnaðarmála af fjárlögum ESB og heitir Cioloş nýjum aðildarríkjum því að fá "sanngjarnari" hlut af heildarfé því sem varið er til landbúnaðarmála.

þriðjudagur, 11. október 2011

Nóbelsverðlaunahafar: Evrópa þarfnast nánari efnahagssamruna

  Bandaríkjamennirnir tveir, sem unnu til Nóbelsverðlaunanna í hagfræði í gær, segja engin einföld svör við skuldakreppunni í Evrópu, en lögðu áherslu á að aukin samvinna í ríkisfjármálum aðildarríkja ESB geti komið í veg fyrir hrun evrunnar.
  Þeir Christopher Sims og Thomas Sargent, báðir 68 ára að aldri, voru verðlaunaðir fyrir rannsóknir sínar á 8. og 9. áratugnum er vörðuðu orsakasamhengi á milli efnahagslífs og stefnu stjórnvalda.

mánudagur, 10. október 2011

Pólsku kosningarnar: Sigur Tusks góður fyrir ESB

   Pólski forsætisráðherrann, Donald Tusk, fagnaði sigri í þingkosningum í gær þegar samsteypustjórn hans hélt meirihluta sínum. Tusk er fyrsti forsætisráðherrann til að sitja í tvö kjörtímabil frá falli kommúnismans árið 1989. Stjórnmálaskýrendur segja sigur Tusks vera góðan fyrir Evrópusambandið. Pólland fer nú með formennsku innan ESB og hefur Tusk rekið einarða stefnu gegn því sem hann kallar "nýja bylgju efasemda um evrópusamruna".
  Flokkur Tusks, Borgaralegur vettvangur, var sigurvegari kosninganna með um 40% atkvæða en flokkur Jaroslaw Kaczynski, Lög og réttur, fékk 30%. Franskur evrópuþingmaður telur sigurinn einkar mikilvægan í hinum erfiðu tímum í efnahagsmálum, þar sem kjósendur hafi verðlaunað ríkisstjórn Tusks fyrir góðan árangur. Hagvöxtur hefur verið síðustu 4 ár í landinu, sem hefur meðal annars orsakast vegna innstreymis tekna úr sjóðum ESB og virkum neytendum á risastórum innanlandsmarkaði.

miðvikudagur, 28. september 2011

Eldræða Barroso í þinginu

  Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hélt eldræðu í Evrópuþinginu í Strassborg, þar sem hann gagnrýndi harðlega leiðtoga aðildarríkjanna og aðferðir þeirra við að leysa mestu erfiðleika sem Evrópa hefði staðið frammi fyrir. Æðstu ráðamenn Bandaríkjanna fengu líka sína sneið fyrir gagnrýni á aðgerðir ESB í efnahagsmálum. Hávært lófatak Evrópuþingmanna truflaði ræðu Barroso hvað eftir annað.
  Barroso sagði í ræðu sinni að það hrikti í stoðum alþjóðakerfisins og að Evrópu stæði ógn af vantrausti á leiðtogum Evrópu almennt og getu þeirra til að finna lausn í erfiðum málum. Hann varaði við hættunni á að aðildarlönd gengju úr ESB og sneru aftur til meiri þjóðernishyggju.
  Hann sagði að fjármálamarkaðir kalli nú á aukna samþættingu í Evrópu.

Fyrirkomulag þingstarfa kostnaðarsamt

  Evrópuþingmenn áætla að eyða um 5 milljörðum ISK í stærri skrifstofur vegna setu á Evrópuþinginu, en skrifstofurnar verða að meðaltali notaðar einu sinni í viku. Frá þessu greinir breska dagblaðið The Telegraph.
  Forsaga málsins er sú, að EÞM samþykktu að fækka þingfundum í Strassborg, en sú samþykkt hefur hrundið af stað málsókn af hendi Frakka.

miðvikudagur, 14. september 2011

Merkel vill breytingar á sáttmála

  Angela Merkel, kannslari Þýskalands, kallar eftir breytingum á grunnsáttmála Evrópusambandsins í kjölfar hins jákvæða dómsúrskurðar stjórnlagadómstóls Þýskalands gagnvart lögmæti björgunaraðgerða til handa aðildarríkjum Evrópusambandsins. Hún segir breytingar á Lissabon sáttmálanum nauðsynlegar til að komast út úr skuldavandanum. Í ræðu, sem margir telja þá mikilvægustu sem kannslarinn hefur haldið, sagði Merkel að úrskurðurinn hefði styrkt stefnu ríkisstjórnar hennar og rutt brautina fyrir endurbótum er geri ESB kleyft að ráða við skuldir sínar.
  Í ræðu sinni benti hún á þá þversögn að nær öll brot á reglum sambandsins sé hægt að kæra til Evrópudómstólsins, en brot á Stöðugleikasamkomulaginu sé ekki hægt að bera undir dómstóla. Hún segir breytinga sé þörf á sáttmála ESB til að efla samstöðu í efnahagsmálum þannig að hægt sé að taka nauðsynleg skref til að leysa úr vaxandi skuldavanda. Endurskoðun er nú hafin á Stöðugleikasamkomulaginu til að tryggja að brotleg aðildarríki sæti viðurlögum og geti ekki haft athugasemdir framkvæmdastjórnarinnar að engu.
  Evrópuþingið hefur gefið út yfirlýsingu sem ætlað er að opna á endurskoðun sáttmálans.
EurActiv

ESB tryggi hráefnabirgðir

  Evrópuþingið hefur hvatt til þess að aðildarlönd verjist hráefnaskorti með því að tryggja hráefnabirgðir sínar gagnvart erlendum útflutningsaðilum, finni aðrar uppsprettur auðlinda og bæti endurvinnslu rafræns úrgangs. Tilmæli þingsins eru ekki bindandi fyrir stjórnvöld, en endurspegla vaxandi áhyggjur aðila í iðnaði sem og umhverfisverndarsinna um skort á nauðsynlegum hráefnum í skugga slæms efnahagsástands.
  Í skýrslu sem þingið gaf út er stefnt að aukinni sjálfbærni og aukinni samkeppnisfærni innan ESB. Í skýrslu þingsins er framkvæmdastjórnin hvött til að íhuga skattlagningu lands og vatnsnotkunar í íðnaði í von um að það leiði til hagkvæmari nýtingar auðlinda í Evrópu. Í skýrslunni er ekki tekin skýr afstaða til þess hvort ESB eigi að nýta svæði á borð við Norðurskautið, Barentshaf eða Grænland, í ljósi andstæðra sjónarmiða auðlindafyrirtækja annars vegar og umhverfisverndarsinna hins vegar.

þriðjudagur, 13. september 2011

Evrulausu löndin vilja aukin áhrif

  Evrulaus lönd innan Evrópusambandsins hittust formlega síðastliðinn mánudag til að ræða hvernig best væri að hafa áhrif á umræðuna um framtíð evrusvæðisins. Fundinn sátu ráðherrar þeir sem sjá um Evrópumál hjá Lettlandi, Litháen, Tékklandi, Ungverjalandi, Búlgaríu, Rúmeníu og Póllandi. Í ljósi áætlana um nánara efnahagssamstarf á evrusvæðinu, sem mun skapa tvískipt Evrópusamstarf, telja evrulausu löndin sig þurfa að koma að ákvarðanatöku um framtíð evrunnar þar sem hún sé ekki einkamál fárra heldur skipti máli fyrir öll lönd Evrópusambandsins. Tillögur landanna sjö um stjórn efnahagsmála verða lagðar fyrir á fundi leiðtogaráðsins í október næstkomandi.

Mega fljúga eftir sextugt

  Flugmönnum í Evrópu er heimilt að halda áfram að fljúga eftir 60 ára aldur, samkvæmt úrskurði Evrópudómstólsins. Dómurinn sagði stjórnvöldum aðildarríkja heimilt að setja ákveðnar takmarkanir gagnvart flugmönnum á þeim aldri, en þeim væri óheimilt að banna mönnum að fljúga sakir hás aldurs. Slíkt væri ólögmæt mismunun á grundvelli aldurs og gengi lengra en naugsynlegt væri til að tryggja öryggi í flugi.

mánudagur, 12. september 2011

Heilbrigðisútgjöld bólgna út vegna "óþarfra" aðgerða

  Samkvæmt nýrri rannsókn á heilbrigðiskostnaði í Evrópu, gefa læknar út of marga lyfseðla fyrir lyfjum og mæla með of mörgum skurðaðgerðum fyrir sjúklinga sína. Þetta er stór hindrun í vegi sparnaðaraðgerða í heilsugæslu og "félagslegrar nýsköpunar".
  Günther Leiner, skipuleggjandi árlegs evrópsks heilsuþings sem haldið verður í Austurríki, segir rannsókn sýna að fjórar af hverjum fimm bakaðgerðum í Þýskalandi séu óþarfar.

miðvikudagur, 7. september 2011

Stjórnarskrárdómstóll: Heimilt að grípa til björgunaraðgerða fyrir Grikkland

Stjórnarskrárdómstóllinn í Þýskalandi lagði í dag blessun sína yfir fyrri þáttöku landsins í björgunaraðgerðum til handa Grikklandi á vegum Evrópusambandsins. Hins vegar sagði í úrskurðinum að þýska þingið yrði að hafa meiri aðkomu að málum þegar kæmi að samþykktum á björgunaraðgerðum í framtíðinni. Fram kom að aðkoma þings að samþykktum á álagningu skatta og ákvörðunum um greiðslur úr ríkissjóði væri grundvallaratriði lýðræðislegra stjórnarhátta samkvæmt þýskri stjórnarskrá.
Niðurstaðan er í samræmi við spár flestra sérfræðinga, sem töldu að í framtíðinni yrðu svipaðar ákvarðanir að hljóta samþykki þingsins. Talið er að þessi þróun muni hægja á ákvarðanatöku Evrópusambandsins þegar kemur að viðbrögðum í efnahagsmálum gagnvart skuldakreppu aðildarríkja. Á hinn bóginn hefur verið skorið úr réttaróvissu og áætlanir um björgunaraðstoð munu því halda áfram í sínum farvegi.
EUObserver

Friðhelgi EÞM ekki bindandi fyrir landsrétt

  Evrópudómstóllinn hefur í nýlegum úrskurði sínum skýrt friðhelgi Evrópuþingmanna (EÞM) á þann veg að bein tengsl þurfi að vera á milli skoðana sem EÞM tjáir og starfa hans á þinginu.
  Í umræddu máli var EÞM sakaður um rangar ásakanir á hendur ítölskum lögreglumanni við skyldustörf, en hann hélt því fram að tími hafi verið falsaður þegar nokkrir ökumenn voru sektaðir fyrir að leggja ólöglega á meðan breytingar á bílastæðahúsi fóru fram. Evrópuþingið tók afstöðu með því að friðhelgi ætti við í tilviki þingmannsins, þar sem hann hafi haft hagsmuni kjósenda sinna að leiðarljósi. Ítalskir dómstólar báðu Evrópudómstólinn um útskýringar á lögfræðilegum álitaefnum varðandi ákvæði er lýtur að friðhelgi EÞM.

Spornað við landamæraeftirliti aðildarlanda

  Nýjar reglur eru í bígerð hjá framkvæmdastjórn ESB þar sem Schengen löndum verður óheimilt að takmarka frjálst flæði fólks án samþykkis framkvæmdastjórnarinnar. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir að Evrópuþingið öðlist aukin áhrif varðandi framkvæmd Schengen samningsins.
  Annars vegar gæti landamæraeftirlit verið leyft vegna fyrirsjáanlegra atburða, s.s. vegna heimsíþróttaviðburða eins og Ólympíuleika, en framkvæmdastjórnin gæti ásamt auknum meirihluta Schengen ríkja leyft upptöku landamæraeftirlits í allt að 6 mánuði. Hins vegar gæti landamæraeftirlit verið leyft vegna ófyrirsjáanlegra atburða, s.s. hryðjuverka eða farsóttar, en aðildarland gæti einhliða sett upp eftirlit í 5 daga og þyrfti eftir það samþykki fyrir áframhaldandi aðgerðum.

þriðjudagur, 6. september 2011

Evrópubúar geta ekki kosið í Sviss

  Kjósendur í svissnesku kantónunni Vaud höfnuðu um helgina tillögu sem hefðu gert erlendum íbúum að kjósa í sveitarstjórnarkosningum. Tillagan átti að heimila þeim erlendu ríkisborgurum að kjósa sem hefðu búið í Sviss í meira en 10 ár, þar af 3 ár í kantónunni Vaud. Hefði tillagan verið samþykkt hefði Vaud orðið fyrsta kantónan þar í landi til að veita erlendum ríkisborgurum kosningarétt á sveitarstjórnarstigi. Tveir þriðjuhlutar íbúa Vaud voru ekki tilbúnir til að aðskilja stjórnmálaleg réttindi í kantónunni og svissneskt ríkisfang.

laugardagur, 27. ágúst 2011

Ráðstefna evrópskra stjórnmálafræðinga á Íslandi

  Lokadagur ráðstefnu evrópskra stjórnmálafræðinga, sem haldin er í húsakynnum Háskóla Íslands, er í dag og hafa um 2.500 stjórnmálafræðingar, fræðimenn og nemendur sótt ráðstefnuna. Þetta er sjötta evrópska ráðstefna stjórnmálafræðinga á vegum European Consortium for Political Research (ECPR). Áætlað er að flutt verði um 2500 innlegg, þar sem kynntar eru niðurstöður rannsókna, í um 500 tveggja klukkustunda málstofum sem skiptast í um 60 efnisflokka.
  Margir efnisflokkanna tengjast rannsóknum á sviði Evrópumála:

fimmtudagur, 28. júlí 2011

Kreppan lækkar mengunarstig í Evrópu

  Loftmengun minnkaði verulega í Evrópu á árinu 2009, þar sem minnkandi eftirspurn eftir orku minnkaði losun eiturefna frá opinberum virkjunum í löndum eins og Búlgaríu, Póllandi, Rúmeníu og á Spáni. Í skýrslunni frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) er varað við því það þrátt fyrir framfarir á árinu 2009 varðandi loftmengandi efni, geti gæði lofts í Evrópu þó verið mjög léleg, einkum í borgum.
  Í niðurstöðum nýrrar rannsóknar kemur fram að losun oxíð brennisteins (SOx) hafi minnkað mest eða um 21 % milli áranna 2008 og 2009. Losun mengunarefna frá rafmagni, eins og köfnunarefnisoxíða (NOx) og svifryks (PM), minnkaði einnig um 10%. Mikill styrkur köfnunarefnisoxíða getur valdið bólgu í öndunarvegi og dregið úr lungnastarfsemi. Svifryk hefur einnig skaðleg áhrif á öndunarfæri. Í skýrslunni er staðfest að um langvarandi þróun sé að ræða í átt að minnkandi loftmengun.

miðvikudagur, 27. júlí 2011

ESB reglur auðvelda innheimtu milli landa

  Framkvæmdastjórn ESB hefur kynnt tillögur að reglum sem auðvelda innheimtu greiðslukrafna milli aðildarlanda. Dómsmálastjóri ESB, Viviane Reding, mun leggja fram tillögur að reglum um varðveislu innistæða á evrópskum reikningum. Reglurnar munu gera dómstólum kleift að gefa út úrskurði til bankastofnanna, sem skyldar þær til að varðveita innistæðu fyrir ákveðinni skuldaupphæð. Úrskurðinn mætti gefa út áður en landsdómstóll hefur staðfest að kröfueigandi eigi tilkall til fjárins.
  Reglurnar eru taldar verða mikil réttarbót, sérstaklega fyrir einstaklinga og smáfyrirtæki. Reglurnar munu til dæmis hjálpa foreldrum sem eiga í erfiðleikum með að fá meðlagsgreiðslur frá foreldri sem flutt hefur til annars aðildarríkis.

þriðjudagur, 5. júlí 2011

Stjórnlagadómstóll Þýskalands metur lögmæti björgunaraðstoðar til Grikkja

  Stjórnlagadómstóll Þýskalands hefur tekið fyrir þrjú mál þar sem dregið er í efa lögmæti þátttöku Þjóðverja í fjármálaaðstoð í tengslum við neyðarlán til Grikklands á síðasta ári, sem samþykkt var af þýska þinginu. Niðurstöðu er að vænta innan nokkurra vikna um hvort þátttaka þýskra stjórnvalda í aðgerðinni hafi brotið í bága við stjórnarskrá landsins. Stutt er síðan leiðtogar ESB samþykktu nýjar fjárhagslegar björgunaraðgerðir til Grikklands.

Nýtt fjársvikamál á Evrópuþinginu

  Ásakanir um fjárdrátt hafa verið settar fram á hendur rúmönskum hægrisinnuðum Evrópuþingmanni (EÞM), Corneliu Vadim Tudor, en stutt er síðan vinnuhópur á þinginu lagði fram lokadrög að siðareglum í fjármálum fyrir EÞM í kjölfar mútuhneykslis.
  Aðstoðarmaður þingmannsins heldur því fram að hann hafi unnið launalaust fyrir EÞM í 2 ár. Hann hafi nýlega uppgötvað að undirskrift hans hafi verið fölsuð á launatengd skjöl og standi hann nú frammi fyrir því að greiða skatta vegna útleystra launa er nema 40.000 evrum fyrir þetta tveggja ára tímabil. Þingmaðurinn vísar ásökununum á bug.

sunnudagur, 3. júlí 2011

Pólland vill efla tiltrú á ESB

  Fjármálakreppan og innflytjendamál eru að mati Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, stóru álitamálin innan Evrópusambandsins í dag. Pólland tók formlega við formennsku ESB þann 1. júlí. Af því tilefni sagði Tusk að sambandið væri að ganga í gengum erfiðasta og flóknasta kafla í sögu sambandsins. Hann sagði ýmsa stjórnmálamenn, sem væru yfirlýstir stuðningsmenn sambandsins, vinna fremur að verndun hagsmuna eigin heimalands og veikja með því sambandið. Hann nefndi ekki nöfn, en benti á Frakkland og Ítalíu og aukið landamæraeftirlit innan Schengen. Hann benti einnig á að samstaða vegna fjárhagslegra málefna væri ekki nægilega góð og nefndi hann andstöðu Þjóðverja við björgunaraðgerðir til handa Grikkjum í þvi sambandi. Hann taldi ekki rétta leið að ýta þjóðum úr evrusamstarfinu vegna fjárhagserfiðleika. Þvert á móti taldi hann að efla þyrfti samþættingu innan Evrópu í þessum efnum. Auka þyrfti tiltrú í garð stofnana sambandsins.EUObserver
EUObserver: A short guide to the Polish presidency
Huffinton Post: Poland E.U. Presidency To Promote 'More United' Europe
Vefsíða Formennsku Póllands innan ESB

Björgunaraðstoð í höfn eftir samþykkt niðurskurðartillagna

  Meirihluti gríska þingsins hefur samþykkt umdeildar niðurskurðartillögur og tillögur um einkavæðingu, í því augnamiði að tryggja fjárhagsaðstoð frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og forða landinu frá yfirvofandi gjaldþroti. Í sameiginlegri yfirlýsingu frá forseta framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso, og forseta leiðtogaráðsins, Herman Van Rompuy, segir að Grikkland hafi sýnt ábyrgð innanlands við afar erfiðar aðstæður og að skilyrði séu nú fyrir hendi

miðvikudagur, 29. júní 2011

Grikkir afgreiða niðurskurðartillögur í dag

  Gríska þingið mun í dag taka ákvörðun um niðurskurðartillögur og skattahækkanir, sem mætt hafa mikilli andstöðu almennings. Óeirðir hafa brotist út í Aþenu og verkföll á landsvísu hafa lamað almenningssamgöngur. Framkvæmdastjórn ESB hefur áréttað að samþykkt niðurskurðaráforma sé forsenda fjárhagsaðstoðar frá sambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að Grikkland eigi enga aðra kosti til að forðast greiðsluþrot.
  Á síðustu vikum hafa ýmsir hagfræðingar og álitsgjafar mælt með öðrum lausnum á greiðsluvandanum, en forsvarsmenn ESB telja slíkar lausnir óraunhæfar. Vangaveltur eru þó hafnar um hvaða lausnir væru í boði ef þingið segði nei við niðurskurðaráformum. Vangaveltur eru uppi um stuðning frá Evrópska fjármálastöðugleikasjóðnum (European Financial Stability Fund). Aðrir hafa velt upp þeim möguleika að taka lán í einkageiranum eða selja einkaaðilum skuldabréf. Talsmaður rannsóknasetursins Re-Define, segir að þannig gæti landið í júlí og ágúst staðið við skuldbindingar sínar gegn háum vöxtum til skamms tíma.
  Fjöldamótmæli og verkföll hafa nú náð hápunkti í Grikklandi, þar sem almenningssamgöngur hafa stöðvast og rafmagnsleysis gætir víða. Um 50 manns slösuðust í átökunum í gær, þar af 37 lögreglumenn. Lögregla beitti táragasi til að halda fólki frá þinghúsinu og voru um 14 manns handteknir í gær. Skoðanakannanir gefa til kynna að allt að 80% Grikkja séu andvígir niðurskurðaráformunum.
EUObserver BBC

þriðjudagur, 28. júní 2011

Dýrt í Danmörku, ódýrt í Búlgaríu - verðlag innan ESB breytilegt

  Neysluverð á vöru og þjónustu er mismunandi meðal aðildarríkja ESB, en dýrast er að versla í Danmörku. Skýrsla Hagstofu Evrópu sýnir að íbúar greiði um 143% af meðalverði aðildarríkjanna árið 2010. Finnland er næstdýrast EBS landanna og greiða heimamenn 123% af meðalverði ESB landanna. London lenti um miðbik listans með 100% af meðaltali ESB landanna. Lægst er verðlagið í Búlgaríu, eða 51% af meðalverði og Rúmeníu, 59% af verðlagi.

Aðild Íslands veltur á stórveldum í fiskveiðum

  Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í samtali við EUObserver á ríkjaráðstefnu Íslands og ESB, að stórveldi í fiskveiðum innan ESB eins og Spánn gegndu lykilhlutverki varðandi aðild Íslands að ESB. Hann sagði að Íslendingar vildu sjá niðurstöðu samningsviðræðnanna áður en þeir tækju afstöðu til aðildar að ESB, sérstaklega þegar kemur að fiskveiðimálum.
  Ráðherrann sagðist bjartsýnn á að Ísland gengi í ESB á næstu árum, sérstaklega í ljósi sveigjanleika þeim sem ESB sýndi í viðræðum við Noreg á tíunda áratug síðustu aldar, en Norðmenn höfnuðu aðild í þjóðaratkvæði árið 1994.

Tillögur um upplýsingagjöf vegna aukastarfa slakar

  Drög að reglum um fjárhagslega upplýsingagjöf Evrópuþingmanna (EÞM) gera lítinn greinarmun á há- og lágtekjumönnum varðandi aukastörf, auk þess sem EÞM frá nýrri aðildarlöndum standa höllum fæti.   Þingmannanefndin sem valin var til að semja reglurnar mun brátt birta lokadrög sín, sem munu þurfa samþykki starfsmanna þingsins og stjórnmálaleiðtoga á þinginu áður en drögin verða lögð fyrir þingið.
Allar aukatekjur mun þurfa að gefa upp samkvæmt þremur mögulegum tekjustofnum. Fyrsti tekjustofninn nefnist "allt að þreföld meðallaun í aðildarríkinu þar sem starfsemi fer fram". Samkvæmt kerfinu mætti þýskur EÞM þéna 120.000 evrur vegna einnar aukavinnu, á meðan rúmenskur EÞM mætti þéna mun minna þar sem meðallaun þar í landi eru lægri.

mánudagur, 27. júní 2011

Aðildarviðræður Íslands við ESB hófust í dag


 Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í samtali við Mbl.is að upphaf formlegra aðildarviðræðna Íslands við ESB væri söguleg stund. Hann sagðist vonast til að hægt væri að hefja viðræður um helming samningsins í ár og að hægt verði að ljúka viðræðunum á næsta ári.
Össur Skarphéðinsson, János Martonyi, utanríkisráðherra
Ungverja sem fara með formennsku og Štefan Füle,
stækkunarstjóri ESB
  Af þeim fjórum köflum sem opnaðir voru, náðist að loka tveimur sem sneru að vísindum og rannsóknum annars vegar og menntun og menningu hins vegar. Kaflarnir um opinber útboð og upplýsingasamfélagið og fjölmiðla verða áfram til umræðu, þar sem Ísland á eftir að innleiða hluta skuldbindinga samkvæmd EES samningnum á þeim sviðum.

sunnudagur, 26. júní 2011

Schengen: Eftirlitsþættir efldir

  Leiðtogaráð ESB samþykkti ályktun um endurbætur á Schengen reglum er leyfa frjálsa för fólks án vegabréfa á svæðinu. Aðildarlöndum verður m.a. heimilt sem þrautalendingu, að taka upp landamæraeftirlit ef annað sambandsland getur ekki uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt Schengen, er lúta að vörnum gegn ólöglegum innflytjendum frá þriðja landi.
  Endurbæturnar munu fela í sér pólitíska vegvísa um að Schengen svæðinu sé stjórnað í samræmi við sameiginlega staðla, meginreglur og venjur.

föstudagur, 24. júní 2011

Evrukrísu afstýrt

  Samkomulag hefur náðst um björgunaraðgerðir ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) til að forða Grikklandi frá gjaldþroti, að því tilskyldu að gríska þingið grípi til frekari aðhaldsaðgerða. Forseti Grikklands, George Papandreou, hefur lofað róttækum efnahagsumbótum í formi skattahækkana og niðurskurðar er nemur 3,8 billjón evrum. Á næstu dögum mun gríska þingið þurfa að samþykkja breytingar á lögum um ríkisfjármál og einkavæðingu í samræmi við samkomulagið.

miðvikudagur, 22. júní 2011

Upplýsingamálastjóri segir ESB blaðamennsku hafa hrakað

  Í viðtali við evrópufréttablaðið EurActiv, sagði upplýsingamálastjóri ESB, Reijo Kemppinen, að fækkun blaðamanna í Brussel í kjölfar efnahagskreppunnar hafi leitt til minnkandi gæða fjölmiðlaumfjöllunar um málefni tengdum ESB. Hann segir að dýpt umfjallana sé minni vegna aukinna áherslna á hröð vinnubrögð. Þá taldi hann samfélagsvefi munu halda áfram að móta og breyta upplýsingastreymi með róttækum hætti í framtíðinni. Blaðamennska muni bera þessa merki.
  Þrátt fyrir mikla áherslu á upplýsingamiðlum í gegnum vefsíður, varaði upplýsingastjórinn við því að einblína um of á þann þátt þegar miðla á upplýsingum til landa þar sem sendiráða sambandsins nyti ekki við eða landa sem hafa ekki blaðamenn með aðsetur í Brussel.
EurActiv

Línur lagðar fyrir leiðtogafund ESB

  Forseti framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso, hefur kynnt leiðtogum og ríkisstjórnum Evrópusambandslandanna meginatriði þau, sem rædd verða á fundi leiðtogaráðs ESB þann 23.-24. júní n.k. Í bréfi frá Barroso skýrði hann frá afstöðu framkvæmdastjórnarinnar til tveggja stærstu málanna sem rædd verða á fundinum, efnahagsstefnu og fólksflutninga.
  Lagt er til að lög verði sett innan sambandsins um skattlagningu vegna fjármagnshreyfinga. Þá verða langtímafjárlög sambandsins kynnt. Lögð er áhersla á samhæfðar aðgerðir til að styrkja Schengen og að landamæraeftirlit ætti ekki að vera tekið upp aftur nema til þrautarvara. Þá mun framkvæmdastjórnin tilnefna Agostino Miozzo sérstakan fulltrúa Suður-Miðjarðarhafs, en hann er háttsettur embættismaður hjá Utanríkisþjónustu Evrópusambandsins (EEAS).

þriðjudagur, 21. júní 2011

Evrópuvefur HÍ

Á fimmtudaginn næstkomandi verður Evrópuvefurinn opnaður á vef Háskóla Íslands. Vefurinn mun veita málefnalegar, óhlutdrægar upplýsingar um Evrópumál. Uppsetning og rekstur vefsins byggir á samkomulagi milli Vísindavefs HÍ og Alþingis frá 4. maí síðastliðnum. Þar verður hægt að spyrja spurninga um allt sem viðkemur Evrópusambandinu og Evrópumálum. Starfsmenn vefsins munu svara spurningunum sjálfir eða leita til fræðimanna á viðkomandi sviði.

föstudagur, 17. júní 2011

Pólland lætur reyna á reglur um forsæti í ESB

  Pólland verður fyrsta ríkið sem mun fara með forsæti í ESB og láta reyna á reglur sambandsins um að landsstjórn standi undir allri vinnu og kostnaði við að reka formennskuembætti ESB án þess að njóta sérstakrar viðurkenningar.
  Piotr Maciej Kaczynski, evrópufræðingur hjá Stofnun evrópumála í Brussel, segir Pólland koma vel undirbúið inn í formennsku embættið og hafi auk þess mikið vægi. Hann spáir því að landið muni ekki vilja vinna eingöngu að framkvæmdahlið málefna á bak við tjöldin, heldur muni það vilja vera sýnilegt út á við.

Best að baða sig á Kýpur

Gæði baðvatna eru best á Kýpur, í Króatíu, á Möltu og á Grikklandi, en verstu einkunn fá strendur í Rúmeníu, Póllandi og Belgíu. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu um gæði baðvatna frá Umhverfisstofnun Evrópu. Niðurstöður skýrslunnar eru þær að meira en 9 af 10 stöðum uppfylla lágmarkskröfur og almenn gæði baðvatns séu góð, þrátt fyrir að örlítillar hnignunar gæti miðað við árið 2009.

fimmtudagur, 16. júní 2011

Aðildarviðræðum Íslands miðar vel áfram

  Þann 27. júní næstkomandi fara fram viðræður um fjóra af 30 málaflokkum, sem semja þarf um til að af aðild Íslands að ESB geti orðið. Frá þessu segir Evrópuvefritið EurActiv, en tekið er fram að á frumstigi viðræðnanna ættu ekki að vera margar hindranir vegna aðildar Íslands að hinu evrópska efnahagssvæði og Schengen. Stefnt er að því að loka tveimur köflum er lúta að vísindum, menntun og menningu. Umræður hefjast svo kaflana um reglur um opinber útboð og fjölmiðlalög og munu halda áfram á næstu mánuðum. Talsmaður ungverskra stjórnvalda,sem fara með formennsku ESB til enda þessa mánaðar, lýsti yfir ánægju sinni með framgang viðræðnanna.
  Bent er þó á að helstu ágreiningsatriði gætu komið upp síðar þegar rætt verður um kaflann um fiskveiðar og skuldavanda landsins.

miðvikudagur, 15. júní 2011

Ráðherrar ræða um nýjar björgunaraðgerðir fyrir Grikkland

  Fjármálaráðherrum ESB tókst ekki að ná samkomulagi um neyðaraðgerðir vegna fjármálakreppu Grikklands á fundi sínum í gærdag, en boðað verður til auka fundar um málið. Þýskaland vill að lánadrottnar deili hluta af kostnaði við björgunaraðgerðirnar, á meðan Seðlabanki Evrópu telur varhugavert að ganga of hart fram í þeim efnum. Grikkland fékk á mánudag lægstu lánshæfiseinkunn lántaka í heiminum frá Standard & Poor´s. Í dag er svo boðað til almenns verkfalls í Grikklandi.

Þýskar baunaspírur ollu E. coli faraldri

  Tilkynnt hefur verið um að uppruni E. coli faraldursins í Evrópu sé fundin, en hann reyndist koma úr baunaspírum frá býli í Neðra-Saxlandi sem er með lífræna ræktun. Haft er eftir ráðuneyti neytendamála í Þýskalandi að hættulegur stofn E. coli hafi fundist í baunaspírum býlisins. Ráðherra landbúnaðar- og neytendamála hefur lýst yfir miklum létti með að uppruni faraldursins sé loks fundin. Þýsk heilbrigðisyfirvöld hafa í kjölfarið afturkallað viðvaranir við neyslu á tómötum, gúrkum og káli.
  Rússar hafa nú aflétt banni við innflutningi á grænmeti. Á fundi ESB og Rússlands vegna innflutningsbannsins var samþykkt að Evrópusambandið yki kröfur til matvælaöryggis. Alls hafa 26 manns látist vegna E. coli faraldursins.
European Voice

þriðjudagur, 14. júní 2011

Ungir bændur uggandi vegna endurbóta á CAP

Joris Baecke, forseti
 Evrópuráðs ungra bænda
  Umræðan um endurbætur á sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB (CAP), hefur ekki tekið tillit til uppkomu nýrrar kynslóðar í greininni, sem á undir högg að sækja. Þetta segir Joris Baecke, forseti Evrópuráðs ungra bænda (CEJA).
  Framkvæmdastjórn ESB setti í nóvember síðastliðinn fram stefnu til endurbóta á sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, þar sem meiri áhersla er lögð á náttúruvernd og fæðuöryggi. Baecke varaði við því að núverandi kynslóð bænda væri að eldast, en aðeins 6% bænda væru undir 35 ára og þriðjungur væri eldri en 65 ára. "Aldurspýramídinn í landbúnaði í dag snýr öfugt", sagði Baecke og spyr hverjir verði bændur eftir 10-20 ár þegar þriðjungur bænda verður kominn á eftirlaun. Því sé áhersla á kynslóðaskipti í greinninni forgangsmál og haga skuli stefnu þannig að sú kynslóð njóti stuðnings og hvatningar fyrstu árin.

föstudagur, 10. júní 2011

Evrópuþingið neitar að birta leyniskýrslu

  Evrópuþingið hefur neitað að birta leyniskýrslu um rannsókn á meðferð þingmanna á risnu og fé vegna aðstoðar við þingstörf. Þingið telur að birting skýrslunnar gæti truflað ákvarðanatöku á þinginu. Dómstóll hafði áður útskurðað að þinginu væri skylt að birta skýrsluna. Starfsmenn þingsins vilja þó ekki veita aðgang að henni þar til formleg ákvörðun hefur verið tekin innan stjórnsýslu ESB um hvort áfrýja eigi málinu til Evrópudómstólsins, en slíkrar ákvörðunar væri ekki að vænta fyrr en í ágúst næstkomandi.
The Telegraph: European parliament refuses to release expenses report

fimmtudagur, 9. júní 2011

ESB ætti að kjósa leiðtoga, segir Blair

  Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, telur að Evrópusambandið verði að eiga sér kjörinn leiðtoga til þess að veita sambandinu skýra forystu í samskiptum við stórveldi á alþjóðavettvangi.
  Blair segir að sú réttlæting að tilvist ESB hvíli á röksemdinni um að halda friðinn, sé úreld. Réttlætingin fyrir ESB nú sé aukið vald. Yngri kynslóðir sjái að í heimi þar sem lönd eins og Kína séu að verða leiðandi stórveldi, sé skynsamlegt fyrir Evrópu að sameina krafta sína til að öðlast aukið vogarafl og aukin áhrif.

Rúmeníu og Búlgaríu neitað um Schengen aðild

  Búist er við að innanríkisráðherrar ESB muni fresta stækkun vegabréfalausa Schengen svæðisins um ótiltekinn tíma, þrátt fyrir samþykkt Evrópuþingsins á inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu í Schengen og að ríkin uppfylli öll tæknileg skilyrði fyrir inngöngu. Samkvæmt EurActiv mætti innganga ríkjanna andstöðu hjá Frakklandi, Þýskalandi, Finnlandi, Svíþjóð, Hollandi og Belgíu.
  Talið er að ríkin sex vilji bíða útkomu jákvæðari skýrslu framkvæmdastjórar um eftirlitsþætti landanna, en borist hafa til þessa. Þeim tilmælum hefur verið beint til landanna að bæta dómskerfi sitt og baráttu við spillingu og skipulagða glæpastarfsemi.

miðvikudagur, 8. júní 2011

ESB gagnrýnir fjárhagsáætlanir aðildarríkja

  Langtíma fjárhagsáætlanir margra ESB landa sættu harðri gagnrýni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í gær. Forseti framkvæmdastjórnarinnar, José Manuel Barroso, sagði að tryggja þyrfti velmegun og brjótast út úr kreppunni með samstilltum markmiðum, þrátt fyrir að það gæti kallað á erfiðar ákvarðanir. Hann taldi að fjárhagsáætlanir margra ESB landa væru ekki nægilega metnaðarfullar og skýrar. Sum lönd væru ekki að skera niður í ríkisfjármálum í samræmi við ESB löggjöf og hefðu ekki nægilega skýrar áætlanir um hvernig minnka ætti atvinnuleysi.

Heildartala yfir síðuflettingar