miðvikudagur, 27. júlí 2011

ESB reglur auðvelda innheimtu milli landa

  Framkvæmdastjórn ESB hefur kynnt tillögur að reglum sem auðvelda innheimtu greiðslukrafna milli aðildarlanda. Dómsmálastjóri ESB, Viviane Reding, mun leggja fram tillögur að reglum um varðveislu innistæða á evrópskum reikningum. Reglurnar munu gera dómstólum kleift að gefa út úrskurði til bankastofnanna, sem skyldar þær til að varðveita innistæðu fyrir ákveðinni skuldaupphæð. Úrskurðinn mætti gefa út áður en landsdómstóll hefur staðfest að kröfueigandi eigi tilkall til fjárins.
  Reglurnar eru taldar verða mikil réttarbót, sérstaklega fyrir einstaklinga og smáfyrirtæki. Reglurnar munu til dæmis hjálpa foreldrum sem eiga í erfiðleikum með að fá meðlagsgreiðslur frá foreldri sem flutt hefur til annars aðildarríkis. Áætlað er að um 134.000 meðlagsgreiðslur fari milli aðildarríkja ESB árlega og að foreldri lendi í erfiðleikum með að fá greiðslu í um 67.000 af þeim tilfellum. Þannig gæti móðir með barn í einu aðildarríki sóst eftir úrskurði um varðveislu bankainnistæðu föður í öðru aðildarlandi. Ef faðirinn hygði á flutning til til lands utan aðildarlandanna og léti loka bankareikningi í sínu aðildarlandi, eru reglurnar taldar geta flýtt fyrir kröfuferlinu þannig að móðirin stæði betur að vígi og yrði fyrir minni tilkostnaði.
  Reglurnar munu einnig hjálpa fólki að ná fram rétti sínum sem kaupir vörur á netinu frá öðru aðildarríki í þeim tilvikum þar sem vara berst ekki. Stærsti ávinningurinn með reglunum er þó talinn vera fyrir lítil fyrirtæki, sem eiga mikið undir greiðslu smárra upphæða. Framkvæmdastjórnin áætlar að um 1 milljón smáfyrirtækja í aðildarlöndunum lendi í erfiðleikum með fullnustu greiðslukrafna milli landa og að um 600 milljónir evra tapist þar sem kröfuhafar treysti sér ekki í flókið innheimtuferli erlendis.
EU Observer

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Heildartala yfir síðuflettingar