miðvikudagur, 15. júní 2011

Ráðherrar ræða um nýjar björgunaraðgerðir fyrir Grikkland

  Fjármálaráðherrum ESB tókst ekki að ná samkomulagi um neyðaraðgerðir vegna fjármálakreppu Grikklands á fundi sínum í gærdag, en boðað verður til auka fundar um málið. Þýskaland vill að lánadrottnar deili hluta af kostnaði við björgunaraðgerðirnar, á meðan Seðlabanki Evrópu telur varhugavert að ganga of hart fram í þeim efnum. Grikkland fékk á mánudag lægstu lánshæfiseinkunn lántaka í heiminum frá Standard & Poor´s. Í dag er svo boðað til almenns verkfalls í Grikklandi.

  Ráðherrarnir eru sammála um að áfram hafi miðað í samkomulagsátt á fundinum. Belgíski fjármálaráðherrann, Didier Reynders, sagði að ná verði jafnvægi á milli aðgerða í Grikklandi, aðstoðar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, evrusvæðinu og ESB og þátttöku einkageirans við lausn vandans. Þýskaland hefur beitt sér fyrir því að framlengt verði í afborgunum af grískum skuldabréfum um 7 ár, til að gefa landinu tækifæri til að rétta af efnahag sinn og selja eignir. Matsfyrirtæki vara við að slíkt þvingunarskref verði tekið. Evrópski seðlabankinn er heldur ekki hrifinn af þýsku lausninni og vill sjá mýkri lendingu í málinu og að um verði að ræða sjálfvalin framlög banka, lífeyrissjóða og tryggingarfyrirtækja sem eigi grískar skuldir. Hagfræðingur hjá J.P. Morgan, David Mackie, segir um þessa togstreitu að eitthvað verði undan að láta á næstu dögum til að svæðið lendi ekki í fjármálakreppu af fullum þunga.
  Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, munu hittast þann 17. júní næstkomandi til að ræða málið, en vaxandi þrýstingur er á leiðtogunum til að leysa ágreining sinn. Stefnt er að því að ný björgunaraðgerð fyrir Grikkland verði samþykkt á leiðtogafundi ESB sem haldinn er 23.-24. júní næstkomandi.
  Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn samþykktu björgunaraðgerðir fyrir Grikkland upp á 110 billjónir evra fyrir rétt rúmlega ári síðan, en Írland og Portúgal fengu í kjölfarið svipaða afgreiðslu. Nýju björgunaraðgerðinni er ætlað að aðstoða Grikkland með fjármagn út árið 2014 og hljóðar upp á 120 billjón evrur samtals. Skuldir landsins nema nú um 150 prósentum af landsframleiðslu.
Næstu skref:
15. júní: Almennt verkfall í Grikklandi
17. júní: Kannslari Þýskalands og forseti Frakklands hittast í Berlín
19. júní: Fjármálaráðherrar ESB hittast aftur vegna nýju björgunaraðgerðarinnar
23.-24. júní: Leiðtogafundur ESB - niðurstöðu að vænta vegna Grikklands

EurActiv  
Tengt efni: Heimssýn: ESB vill eins flokks ríki í Grikklandi, Mbl: Hafna niðurskurðaráætlun,

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Heildartala yfir síðuflettingar