miðvikudagur, 14. september 2011

ESB tryggi hráefnabirgðir

  Evrópuþingið hefur hvatt til þess að aðildarlönd verjist hráefnaskorti með því að tryggja hráefnabirgðir sínar gagnvart erlendum útflutningsaðilum, finni aðrar uppsprettur auðlinda og bæti endurvinnslu rafræns úrgangs. Tilmæli þingsins eru ekki bindandi fyrir stjórnvöld, en endurspegla vaxandi áhyggjur aðila í iðnaði sem og umhverfisverndarsinna um skort á nauðsynlegum hráefnum í skugga slæms efnahagsástands.
  Í skýrslu sem þingið gaf út er stefnt að aukinni sjálfbærni og aukinni samkeppnisfærni innan ESB. Í skýrslu þingsins er framkvæmdastjórnin hvött til að íhuga skattlagningu lands og vatnsnotkunar í íðnaði í von um að það leiði til hagkvæmari nýtingar auðlinda í Evrópu. Í skýrslunni er ekki tekin skýr afstaða til þess hvort ESB eigi að nýta svæði á borð við Norðurskautið, Barentshaf eða Grænland, í ljósi andstæðra sjónarmiða auðlindafyrirtækja annars vegar og umhverfisverndarsinna hins vegar.
  Antonio Tajani, iðnaðar- og nýsköpunarstjóri ESB, sagði eftir atkvæðagreiðsluna um málið í þinginu að þrír aðalþættir áætlunarinnar væru: nýsköpun, sönn samstaða og sjálfbærni hráefna sem sættu sjónarmið umhverfisverndarsinna og námagerðarsinna.
  Stjórnmálamenn ættu að mati Evrópuþingsins að tryggja áframhaldandi sölu frá erlendum birgjum. Þróunaraðstoð ESB í fátækum löndum á þó ekki að vera háð hráefnisútflutningi þeirra til ESB. ESB ætti fremur að vinna með öðrum ríkjum við að þróa aðrar auðlindir og efla endurheimtu rafræns rusls, með áherslu á gamlar fartölvur og farsíma. Í skýrslunni segir að Kína ráði yfir meira en 95% útflutnings á varningi í hátækni, eins og rafeindatækjum, batteríum í vetnisbíla og vindtúrbínum - þegar þeir hafi dregið úr útflutningi hafi viðskiptamenn erlendis orðið fyrir óþægindum.
  Skýrsla þingsins kemur út örfáum dögum fyrir útgáfu framkvæmdastjórnarinnar á tillögum um hvernig ESB geti notað takmarkaðar auðlindir á skilvirkari hátt.
Reuters

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Heildartala yfir síðuflettingar