mánudagur, 12. september 2011

Heilbrigðisútgjöld bólgna út vegna "óþarfra" aðgerða

  Samkvæmt nýrri rannsókn á heilbrigðiskostnaði í Evrópu, gefa læknar út of marga lyfseðla fyrir lyfjum og mæla með of mörgum skurðaðgerðum fyrir sjúklinga sína. Þetta er stór hindrun í vegi sparnaðaraðgerða í heilsugæslu og "félagslegrar nýsköpunar".
  Günther Leiner, skipuleggjandi árlegs evrópsks heilsuþings sem haldið verður í Austurríki, segir rannsókn sýna að fjórar af hverjum fimm bakaðgerðum í Þýskalandi séu óþarfar. Hann bendir einnig á gögn Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem sýna mikið misræmi milli fjölda mjaðmaaðgerða á hverja 100.000 íbúa, þar sem Þjóðverjar væru með flestar aðgerðir (289) á meðan Pólland væri með afar fáar aðgerðir (39) til samanburðar.
  Leiner segir misræmi í samanburði á fjölda aðgerða milli landa vera með þeim hætti, að merki séu um óþarfa fjölda aðgerða, sem sennilega mætti rekja til fjárhagslegra sjónarmiða fremur en læknisfræðilegra. Hann bendir á að samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar fái um sjö milljónir jarðarbúa árlega fylgikvilla vegna skurðaðgerða, en um helmingur aðgerðanna hafi verið framkvæmdar að óþörfu.
  Hin árlega evrópska heilbrigðisráðstefna sem fer fram í Austurríki í næsta mánuði ber yfirskriftina"Nýsköpun og heilbrigði: Heilsa Evrópubúa 2020 og til framtíðar". Á fundinum verður rætt um þörf á sameiginlegri stefnu í Evrópu um "félagslega nýsköpun" í heilbrigðisþjónustu. Þannig séu íbúar hvattir til að breyta hegðun sinni á þann hátt að lífsþróttur þeirra aukist.
EurActiv

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Heildartala yfir síðuflettingar