mánudagur, 27. júní 2011

Aðildarviðræður Íslands við ESB hófust í dag


 Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í samtali við Mbl.is að upphaf formlegra aðildarviðræðna Íslands við ESB væri söguleg stund. Hann sagðist vonast til að hægt væri að hefja viðræður um helming samningsins í ár og að hægt verði að ljúka viðræðunum á næsta ári.
Össur Skarphéðinsson, János Martonyi, utanríkisráðherra
Ungverja sem fara með formennsku og Štefan Füle,
stækkunarstjóri ESB
  Af þeim fjórum köflum sem opnaðir voru, náðist að loka tveimur sem sneru að vísindum og rannsóknum annars vegar og menntun og menningu hins vegar. Kaflarnir um opinber útboð og upplýsingasamfélagið og fjölmiðla verða áfram til umræðu, þar sem Ísland á eftir að innleiða hluta skuldbindinga samkvæmd EES samningnum á þeim sviðum.

  Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og varaþingmaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við DV í dag að erfiðustu samningsmálefnin yrðu sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, en Ísland væri hins vegar að semja á hárréttum tíma. ESB væri að marka sér nýja sjávarútvegsstefnu sem ætti að taka gildi 2014. Því væri mikilvægt að samningsmarkmið Íslendinga á þessu sviði væru skýr áður en kaflinn um sjávarútvegsmál væri opnaður. Kröfur Íslands um eigin stjórn í fiskveiðimálum rími við kröfur Breta.
  Gagnrýnisraddir hníga aðallega að ógagnsæi, fyrirkomulagi og tímasetningu viðræðnanna. Þær benda á að rýnivinna sú sem sé undanfari viðræðnanna hafi verið lokað ferli og að gögn liggi ekki fyrir sem almenningur getur kynnt sér um viðræðurnar. Aðildarviðræðunum sjálfum þurfi að haga þannig að almenningur geti kynnt sér framgang og innihald þeirra. Þá hefur verið gagnrýnt að ekki liggi fyrir hvenær taka eigi fyrir stærstu og veigamestu kaflana, eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, sem eðlilegt væri að taka fyrir fyrst. Þá er bent á að einkennilegt sé að Ísland sæki um aðild á sama tíma og mikil andstaða sé við evruna og aðgerðir ESB á Spáni, Grikklandi og víðar.
Mbl: Söguleg stund fyrir Ísland
Já Ísland: Aðildarviðræður við Evrópusambandið eru hafnar
DV: Baldur Þórhallsson: „Góður tími til að hefja ESB viðræður“
DV: Aðildarviðræður hafnar: „Svolítið kaldhæðnislegt" - Evran ekki það sem bjargaði Írum eða Grikkjum, segir Ásmundur Einar

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Heildartala yfir síðuflettingar