miðvikudagur, 29. júní 2011

Grikkir afgreiða niðurskurðartillögur í dag

  Gríska þingið mun í dag taka ákvörðun um niðurskurðartillögur og skattahækkanir, sem mætt hafa mikilli andstöðu almennings. Óeirðir hafa brotist út í Aþenu og verkföll á landsvísu hafa lamað almenningssamgöngur. Framkvæmdastjórn ESB hefur áréttað að samþykkt niðurskurðaráforma sé forsenda fjárhagsaðstoðar frá sambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að Grikkland eigi enga aðra kosti til að forðast greiðsluþrot.
  Á síðustu vikum hafa ýmsir hagfræðingar og álitsgjafar mælt með öðrum lausnum á greiðsluvandanum, en forsvarsmenn ESB telja slíkar lausnir óraunhæfar. Vangaveltur eru þó hafnar um hvaða lausnir væru í boði ef þingið segði nei við niðurskurðaráformum. Vangaveltur eru uppi um stuðning frá Evrópska fjármálastöðugleikasjóðnum (European Financial Stability Fund). Aðrir hafa velt upp þeim möguleika að taka lán í einkageiranum eða selja einkaaðilum skuldabréf. Talsmaður rannsóknasetursins Re-Define, segir að þannig gæti landið í júlí og ágúst staðið við skuldbindingar sínar gegn háum vöxtum til skamms tíma.
  Fjöldamótmæli og verkföll hafa nú náð hápunkti í Grikklandi, þar sem almenningssamgöngur hafa stöðvast og rafmagnsleysis gætir víða. Um 50 manns slösuðust í átökunum í gær, þar af 37 lögreglumenn. Lögregla beitti táragasi til að halda fólki frá þinghúsinu og voru um 14 manns handteknir í gær. Skoðanakannanir gefa til kynna að allt að 80% Grikkja séu andvígir niðurskurðaráformunum.
EUObserver BBC

þriðjudagur, 28. júní 2011

Dýrt í Danmörku, ódýrt í Búlgaríu - verðlag innan ESB breytilegt

  Neysluverð á vöru og þjónustu er mismunandi meðal aðildarríkja ESB, en dýrast er að versla í Danmörku. Skýrsla Hagstofu Evrópu sýnir að íbúar greiði um 143% af meðalverði aðildarríkjanna árið 2010. Finnland er næstdýrast EBS landanna og greiða heimamenn 123% af meðalverði ESB landanna. London lenti um miðbik listans með 100% af meðaltali ESB landanna. Lægst er verðlagið í Búlgaríu, eða 51% af meðalverði og Rúmeníu, 59% af verðlagi.

Aðild Íslands veltur á stórveldum í fiskveiðum

  Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í samtali við EUObserver á ríkjaráðstefnu Íslands og ESB, að stórveldi í fiskveiðum innan ESB eins og Spánn gegndu lykilhlutverki varðandi aðild Íslands að ESB. Hann sagði að Íslendingar vildu sjá niðurstöðu samningsviðræðnanna áður en þeir tækju afstöðu til aðildar að ESB, sérstaklega þegar kemur að fiskveiðimálum.
  Ráðherrann sagðist bjartsýnn á að Ísland gengi í ESB á næstu árum, sérstaklega í ljósi sveigjanleika þeim sem ESB sýndi í viðræðum við Noreg á tíunda áratug síðustu aldar, en Norðmenn höfnuðu aðild í þjóðaratkvæði árið 1994.

Tillögur um upplýsingagjöf vegna aukastarfa slakar

  Drög að reglum um fjárhagslega upplýsingagjöf Evrópuþingmanna (EÞM) gera lítinn greinarmun á há- og lágtekjumönnum varðandi aukastörf, auk þess sem EÞM frá nýrri aðildarlöndum standa höllum fæti.   Þingmannanefndin sem valin var til að semja reglurnar mun brátt birta lokadrög sín, sem munu þurfa samþykki starfsmanna þingsins og stjórnmálaleiðtoga á þinginu áður en drögin verða lögð fyrir þingið.
Allar aukatekjur mun þurfa að gefa upp samkvæmt þremur mögulegum tekjustofnum. Fyrsti tekjustofninn nefnist "allt að þreföld meðallaun í aðildarríkinu þar sem starfsemi fer fram". Samkvæmt kerfinu mætti þýskur EÞM þéna 120.000 evrur vegna einnar aukavinnu, á meðan rúmenskur EÞM mætti þéna mun minna þar sem meðallaun þar í landi eru lægri.

mánudagur, 27. júní 2011

Aðildarviðræður Íslands við ESB hófust í dag


 Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í samtali við Mbl.is að upphaf formlegra aðildarviðræðna Íslands við ESB væri söguleg stund. Hann sagðist vonast til að hægt væri að hefja viðræður um helming samningsins í ár og að hægt verði að ljúka viðræðunum á næsta ári.
Össur Skarphéðinsson, János Martonyi, utanríkisráðherra
Ungverja sem fara með formennsku og Štefan Füle,
stækkunarstjóri ESB
  Af þeim fjórum köflum sem opnaðir voru, náðist að loka tveimur sem sneru að vísindum og rannsóknum annars vegar og menntun og menningu hins vegar. Kaflarnir um opinber útboð og upplýsingasamfélagið og fjölmiðla verða áfram til umræðu, þar sem Ísland á eftir að innleiða hluta skuldbindinga samkvæmd EES samningnum á þeim sviðum.

sunnudagur, 26. júní 2011

Schengen: Eftirlitsþættir efldir

  Leiðtogaráð ESB samþykkti ályktun um endurbætur á Schengen reglum er leyfa frjálsa för fólks án vegabréfa á svæðinu. Aðildarlöndum verður m.a. heimilt sem þrautalendingu, að taka upp landamæraeftirlit ef annað sambandsland getur ekki uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt Schengen, er lúta að vörnum gegn ólöglegum innflytjendum frá þriðja landi.
  Endurbæturnar munu fela í sér pólitíska vegvísa um að Schengen svæðinu sé stjórnað í samræmi við sameiginlega staðla, meginreglur og venjur.

föstudagur, 24. júní 2011

Evrukrísu afstýrt

  Samkomulag hefur náðst um björgunaraðgerðir ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) til að forða Grikklandi frá gjaldþroti, að því tilskyldu að gríska þingið grípi til frekari aðhaldsaðgerða. Forseti Grikklands, George Papandreou, hefur lofað róttækum efnahagsumbótum í formi skattahækkana og niðurskurðar er nemur 3,8 billjón evrum. Á næstu dögum mun gríska þingið þurfa að samþykkja breytingar á lögum um ríkisfjármál og einkavæðingu í samræmi við samkomulagið.

miðvikudagur, 22. júní 2011

Upplýsingamálastjóri segir ESB blaðamennsku hafa hrakað

  Í viðtali við evrópufréttablaðið EurActiv, sagði upplýsingamálastjóri ESB, Reijo Kemppinen, að fækkun blaðamanna í Brussel í kjölfar efnahagskreppunnar hafi leitt til minnkandi gæða fjölmiðlaumfjöllunar um málefni tengdum ESB. Hann segir að dýpt umfjallana sé minni vegna aukinna áherslna á hröð vinnubrögð. Þá taldi hann samfélagsvefi munu halda áfram að móta og breyta upplýsingastreymi með róttækum hætti í framtíðinni. Blaðamennska muni bera þessa merki.
  Þrátt fyrir mikla áherslu á upplýsingamiðlum í gegnum vefsíður, varaði upplýsingastjórinn við því að einblína um of á þann þátt þegar miðla á upplýsingum til landa þar sem sendiráða sambandsins nyti ekki við eða landa sem hafa ekki blaðamenn með aðsetur í Brussel.
EurActiv

Línur lagðar fyrir leiðtogafund ESB

  Forseti framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso, hefur kynnt leiðtogum og ríkisstjórnum Evrópusambandslandanna meginatriði þau, sem rædd verða á fundi leiðtogaráðs ESB þann 23.-24. júní n.k. Í bréfi frá Barroso skýrði hann frá afstöðu framkvæmdastjórnarinnar til tveggja stærstu málanna sem rædd verða á fundinum, efnahagsstefnu og fólksflutninga.
  Lagt er til að lög verði sett innan sambandsins um skattlagningu vegna fjármagnshreyfinga. Þá verða langtímafjárlög sambandsins kynnt. Lögð er áhersla á samhæfðar aðgerðir til að styrkja Schengen og að landamæraeftirlit ætti ekki að vera tekið upp aftur nema til þrautarvara. Þá mun framkvæmdastjórnin tilnefna Agostino Miozzo sérstakan fulltrúa Suður-Miðjarðarhafs, en hann er háttsettur embættismaður hjá Utanríkisþjónustu Evrópusambandsins (EEAS).

þriðjudagur, 21. júní 2011

Evrópuvefur HÍ

Á fimmtudaginn næstkomandi verður Evrópuvefurinn opnaður á vef Háskóla Íslands. Vefurinn mun veita málefnalegar, óhlutdrægar upplýsingar um Evrópumál. Uppsetning og rekstur vefsins byggir á samkomulagi milli Vísindavefs HÍ og Alþingis frá 4. maí síðastliðnum. Þar verður hægt að spyrja spurninga um allt sem viðkemur Evrópusambandinu og Evrópumálum. Starfsmenn vefsins munu svara spurningunum sjálfir eða leita til fræðimanna á viðkomandi sviði.

föstudagur, 17. júní 2011

Pólland lætur reyna á reglur um forsæti í ESB

  Pólland verður fyrsta ríkið sem mun fara með forsæti í ESB og láta reyna á reglur sambandsins um að landsstjórn standi undir allri vinnu og kostnaði við að reka formennskuembætti ESB án þess að njóta sérstakrar viðurkenningar.
  Piotr Maciej Kaczynski, evrópufræðingur hjá Stofnun evrópumála í Brussel, segir Pólland koma vel undirbúið inn í formennsku embættið og hafi auk þess mikið vægi. Hann spáir því að landið muni ekki vilja vinna eingöngu að framkvæmdahlið málefna á bak við tjöldin, heldur muni það vilja vera sýnilegt út á við.

Best að baða sig á Kýpur

Gæði baðvatna eru best á Kýpur, í Króatíu, á Möltu og á Grikklandi, en verstu einkunn fá strendur í Rúmeníu, Póllandi og Belgíu. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu um gæði baðvatna frá Umhverfisstofnun Evrópu. Niðurstöður skýrslunnar eru þær að meira en 9 af 10 stöðum uppfylla lágmarkskröfur og almenn gæði baðvatns séu góð, þrátt fyrir að örlítillar hnignunar gæti miðað við árið 2009.

fimmtudagur, 16. júní 2011

Aðildarviðræðum Íslands miðar vel áfram

  Þann 27. júní næstkomandi fara fram viðræður um fjóra af 30 málaflokkum, sem semja þarf um til að af aðild Íslands að ESB geti orðið. Frá þessu segir Evrópuvefritið EurActiv, en tekið er fram að á frumstigi viðræðnanna ættu ekki að vera margar hindranir vegna aðildar Íslands að hinu evrópska efnahagssvæði og Schengen. Stefnt er að því að loka tveimur köflum er lúta að vísindum, menntun og menningu. Umræður hefjast svo kaflana um reglur um opinber útboð og fjölmiðlalög og munu halda áfram á næstu mánuðum. Talsmaður ungverskra stjórnvalda,sem fara með formennsku ESB til enda þessa mánaðar, lýsti yfir ánægju sinni með framgang viðræðnanna.
  Bent er þó á að helstu ágreiningsatriði gætu komið upp síðar þegar rætt verður um kaflann um fiskveiðar og skuldavanda landsins.

miðvikudagur, 15. júní 2011

Ráðherrar ræða um nýjar björgunaraðgerðir fyrir Grikkland

  Fjármálaráðherrum ESB tókst ekki að ná samkomulagi um neyðaraðgerðir vegna fjármálakreppu Grikklands á fundi sínum í gærdag, en boðað verður til auka fundar um málið. Þýskaland vill að lánadrottnar deili hluta af kostnaði við björgunaraðgerðirnar, á meðan Seðlabanki Evrópu telur varhugavert að ganga of hart fram í þeim efnum. Grikkland fékk á mánudag lægstu lánshæfiseinkunn lántaka í heiminum frá Standard & Poor´s. Í dag er svo boðað til almenns verkfalls í Grikklandi.

Þýskar baunaspírur ollu E. coli faraldri

  Tilkynnt hefur verið um að uppruni E. coli faraldursins í Evrópu sé fundin, en hann reyndist koma úr baunaspírum frá býli í Neðra-Saxlandi sem er með lífræna ræktun. Haft er eftir ráðuneyti neytendamála í Þýskalandi að hættulegur stofn E. coli hafi fundist í baunaspírum býlisins. Ráðherra landbúnaðar- og neytendamála hefur lýst yfir miklum létti með að uppruni faraldursins sé loks fundin. Þýsk heilbrigðisyfirvöld hafa í kjölfarið afturkallað viðvaranir við neyslu á tómötum, gúrkum og káli.
  Rússar hafa nú aflétt banni við innflutningi á grænmeti. Á fundi ESB og Rússlands vegna innflutningsbannsins var samþykkt að Evrópusambandið yki kröfur til matvælaöryggis. Alls hafa 26 manns látist vegna E. coli faraldursins.
European Voice

þriðjudagur, 14. júní 2011

Ungir bændur uggandi vegna endurbóta á CAP

Joris Baecke, forseti
 Evrópuráðs ungra bænda
  Umræðan um endurbætur á sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB (CAP), hefur ekki tekið tillit til uppkomu nýrrar kynslóðar í greininni, sem á undir högg að sækja. Þetta segir Joris Baecke, forseti Evrópuráðs ungra bænda (CEJA).
  Framkvæmdastjórn ESB setti í nóvember síðastliðinn fram stefnu til endurbóta á sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, þar sem meiri áhersla er lögð á náttúruvernd og fæðuöryggi. Baecke varaði við því að núverandi kynslóð bænda væri að eldast, en aðeins 6% bænda væru undir 35 ára og þriðjungur væri eldri en 65 ára. "Aldurspýramídinn í landbúnaði í dag snýr öfugt", sagði Baecke og spyr hverjir verði bændur eftir 10-20 ár þegar þriðjungur bænda verður kominn á eftirlaun. Því sé áhersla á kynslóðaskipti í greinninni forgangsmál og haga skuli stefnu þannig að sú kynslóð njóti stuðnings og hvatningar fyrstu árin.

föstudagur, 10. júní 2011

Evrópuþingið neitar að birta leyniskýrslu

  Evrópuþingið hefur neitað að birta leyniskýrslu um rannsókn á meðferð þingmanna á risnu og fé vegna aðstoðar við þingstörf. Þingið telur að birting skýrslunnar gæti truflað ákvarðanatöku á þinginu. Dómstóll hafði áður útskurðað að þinginu væri skylt að birta skýrsluna. Starfsmenn þingsins vilja þó ekki veita aðgang að henni þar til formleg ákvörðun hefur verið tekin innan stjórnsýslu ESB um hvort áfrýja eigi málinu til Evrópudómstólsins, en slíkrar ákvörðunar væri ekki að vænta fyrr en í ágúst næstkomandi.
The Telegraph: European parliament refuses to release expenses report

fimmtudagur, 9. júní 2011

ESB ætti að kjósa leiðtoga, segir Blair

  Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, telur að Evrópusambandið verði að eiga sér kjörinn leiðtoga til þess að veita sambandinu skýra forystu í samskiptum við stórveldi á alþjóðavettvangi.
  Blair segir að sú réttlæting að tilvist ESB hvíli á röksemdinni um að halda friðinn, sé úreld. Réttlætingin fyrir ESB nú sé aukið vald. Yngri kynslóðir sjái að í heimi þar sem lönd eins og Kína séu að verða leiðandi stórveldi, sé skynsamlegt fyrir Evrópu að sameina krafta sína til að öðlast aukið vogarafl og aukin áhrif.

Rúmeníu og Búlgaríu neitað um Schengen aðild

  Búist er við að innanríkisráðherrar ESB muni fresta stækkun vegabréfalausa Schengen svæðisins um ótiltekinn tíma, þrátt fyrir samþykkt Evrópuþingsins á inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu í Schengen og að ríkin uppfylli öll tæknileg skilyrði fyrir inngöngu. Samkvæmt EurActiv mætti innganga ríkjanna andstöðu hjá Frakklandi, Þýskalandi, Finnlandi, Svíþjóð, Hollandi og Belgíu.
  Talið er að ríkin sex vilji bíða útkomu jákvæðari skýrslu framkvæmdastjórar um eftirlitsþætti landanna, en borist hafa til þessa. Þeim tilmælum hefur verið beint til landanna að bæta dómskerfi sitt og baráttu við spillingu og skipulagða glæpastarfsemi.

miðvikudagur, 8. júní 2011

ESB gagnrýnir fjárhagsáætlanir aðildarríkja

  Langtíma fjárhagsáætlanir margra ESB landa sættu harðri gagnrýni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í gær. Forseti framkvæmdastjórnarinnar, José Manuel Barroso, sagði að tryggja þyrfti velmegun og brjótast út úr kreppunni með samstilltum markmiðum, þrátt fyrir að það gæti kallað á erfiðar ákvarðanir. Hann taldi að fjárhagsáætlanir margra ESB landa væru ekki nægilega metnaðarfullar og skýrar. Sum lönd væru ekki að skera niður í ríkisfjármálum í samræmi við ESB löggjöf og hefðu ekki nægilega skýrar áætlanir um hvernig minnka ætti atvinnuleysi.

Þing birti gögn um misferli Evrópuþingmanna

  Dómstóll Evrópusambandsins hefur úrskurðað að Evrópuþinginu sé skylt að birta umdeilda skýrslu, þar sem fram kemur að þingmenn hafi misfarið með fé sem ætlað er til að greiða aðstoðarmönnum á þingi. Dómstóllinn ógilti synjun þingsins um aðgang að skýrslunni, á þeim grundvelli að birting hefði grafið undan trúverðugleika innri endurskoðunar. Þingið getur nú farið með málið fyrir Evrópudómstólinn, en sú leið hefur mætt andstöðu nokkurra þingmanna.
  Í skýrslunni kemur fram að umrætt fé til aðstoðarmanna rann í einhverjum tilvikum til fjölskyldumeðlima, réttindalausra starfsmanna, stjórnmálaflokka á landsvísu, auk þess sem einhverjir högnuðust persónulega. Einn þingmaður greiddi einum aðila allan árlega styrkinn, sem nam 200.000 evrum.

Aðstoð vegna E. coli faraldurs

Landbúnaðarstjóri ESB, Dacian Ciolos, hefur óskað eftir 25 milljarða fjárhagsaðstoð til handa evrópskum grænmetisbændum sem hafa orðið illa úti vegna E. coli faraldursins. Tillagan verður rædd á fundi landbúnaðarráðherra ESB í Lúxemborg í dag. Landbúnaðarstjórinn segir að án vitneskju um uppsprettu faraldursins verði erfitt að endurvinna traust neytenda. Meira en 2.300 manns í 14 löndum hafa veikst, aðallega í Þýskalandi, og 25 hafa látist af völdum E. coli bakteríunnar. Skaði fyrir grænmetisframleiðendur er enn óvís, en áætlað er að hann muni nema hundruðum milljóna evra.EU Observer: EU calls for €150m in aid for farmers hit by E. coli scare

þriðjudagur, 7. júní 2011

Króatía að ljúka aðildarviðræðum

  Króatía hefur nýlokið samningalotu um fiskveiðistjórnunarkafla aðildarsamnings síns um inngöngu í Evrópusambandið. Aðalsamningamaður landsins, Vladimir Drobnjak, telur að samningaviðræðum verði senn lokið.
  Þeir fjórir kaflar sem enn er ólokið eru: kafli 23- Dómskerfi og mannréttindi, kafli átta- Stefna í samkeppnismálum, kafli 33- Fjármála og fjárlaga ákvæði og kafli 35- Önnur mál, sem er af tæknilegum toga.
  Umdeildasti kafli viðræðnanna er kaflinn um Dómskerfi og mannréttindi,

Heildartala yfir síðuflettingar