miðvikudagur, 29. júní 2011

Grikkir afgreiða niðurskurðartillögur í dag

  Gríska þingið mun í dag taka ákvörðun um niðurskurðartillögur og skattahækkanir, sem mætt hafa mikilli andstöðu almennings. Óeirðir hafa brotist út í Aþenu og verkföll á landsvísu hafa lamað almenningssamgöngur. Framkvæmdastjórn ESB hefur áréttað að samþykkt niðurskurðaráforma sé forsenda fjárhagsaðstoðar frá sambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að Grikkland eigi enga aðra kosti til að forðast greiðsluþrot.
  Á síðustu vikum hafa ýmsir hagfræðingar og álitsgjafar mælt með öðrum lausnum á greiðsluvandanum, en forsvarsmenn ESB telja slíkar lausnir óraunhæfar. Vangaveltur eru þó hafnar um hvaða lausnir væru í boði ef þingið segði nei við niðurskurðaráformum. Vangaveltur eru uppi um stuðning frá Evrópska fjármálastöðugleikasjóðnum (European Financial Stability Fund). Aðrir hafa velt upp þeim möguleika að taka lán í einkageiranum eða selja einkaaðilum skuldabréf. Talsmaður rannsóknasetursins Re-Define, segir að þannig gæti landið í júlí og ágúst staðið við skuldbindingar sínar gegn háum vöxtum til skamms tíma.
  Fjöldamótmæli og verkföll hafa nú náð hápunkti í Grikklandi, þar sem almenningssamgöngur hafa stöðvast og rafmagnsleysis gætir víða. Um 50 manns slösuðust í átökunum í gær, þar af 37 lögreglumenn. Lögregla beitti táragasi til að halda fólki frá þinghúsinu og voru um 14 manns handteknir í gær. Skoðanakannanir gefa til kynna að allt að 80% Grikkja séu andvígir niðurskurðaráformunum.
EUObserver BBC

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Heildartala yfir síðuflettingar