miðvikudagur, 28. september 2011

Eldræða Barroso í þinginu

  Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hélt eldræðu í Evrópuþinginu í Strassborg, þar sem hann gagnrýndi harðlega leiðtoga aðildarríkjanna og aðferðir þeirra við að leysa mestu erfiðleika sem Evrópa hefði staðið frammi fyrir. Æðstu ráðamenn Bandaríkjanna fengu líka sína sneið fyrir gagnrýni á aðgerðir ESB í efnahagsmálum. Hávært lófatak Evrópuþingmanna truflaði ræðu Barroso hvað eftir annað.
  Barroso sagði í ræðu sinni að það hrikti í stoðum alþjóðakerfisins og að Evrópu stæði ógn af vantrausti á leiðtogum Evrópu almennt og getu þeirra til að finna lausn í erfiðum málum. Hann varaði við hættunni á að aðildarlönd gengju úr ESB og sneru aftur til meiri þjóðernishyggju.
  Hann sagði að fjármálamarkaðir kalli nú á aukna samþættingu í Evrópu.

Fyrirkomulag þingstarfa kostnaðarsamt

  Evrópuþingmenn áætla að eyða um 5 milljörðum ISK í stærri skrifstofur vegna setu á Evrópuþinginu, en skrifstofurnar verða að meðaltali notaðar einu sinni í viku. Frá þessu greinir breska dagblaðið The Telegraph.
  Forsaga málsins er sú, að EÞM samþykktu að fækka þingfundum í Strassborg, en sú samþykkt hefur hrundið af stað málsókn af hendi Frakka.

miðvikudagur, 14. september 2011

Merkel vill breytingar á sáttmála

  Angela Merkel, kannslari Þýskalands, kallar eftir breytingum á grunnsáttmála Evrópusambandsins í kjölfar hins jákvæða dómsúrskurðar stjórnlagadómstóls Þýskalands gagnvart lögmæti björgunaraðgerða til handa aðildarríkjum Evrópusambandsins. Hún segir breytingar á Lissabon sáttmálanum nauðsynlegar til að komast út úr skuldavandanum. Í ræðu, sem margir telja þá mikilvægustu sem kannslarinn hefur haldið, sagði Merkel að úrskurðurinn hefði styrkt stefnu ríkisstjórnar hennar og rutt brautina fyrir endurbótum er geri ESB kleyft að ráða við skuldir sínar.
  Í ræðu sinni benti hún á þá þversögn að nær öll brot á reglum sambandsins sé hægt að kæra til Evrópudómstólsins, en brot á Stöðugleikasamkomulaginu sé ekki hægt að bera undir dómstóla. Hún segir breytinga sé þörf á sáttmála ESB til að efla samstöðu í efnahagsmálum þannig að hægt sé að taka nauðsynleg skref til að leysa úr vaxandi skuldavanda. Endurskoðun er nú hafin á Stöðugleikasamkomulaginu til að tryggja að brotleg aðildarríki sæti viðurlögum og geti ekki haft athugasemdir framkvæmdastjórnarinnar að engu.
  Evrópuþingið hefur gefið út yfirlýsingu sem ætlað er að opna á endurskoðun sáttmálans.
EurActiv

ESB tryggi hráefnabirgðir

  Evrópuþingið hefur hvatt til þess að aðildarlönd verjist hráefnaskorti með því að tryggja hráefnabirgðir sínar gagnvart erlendum útflutningsaðilum, finni aðrar uppsprettur auðlinda og bæti endurvinnslu rafræns úrgangs. Tilmæli þingsins eru ekki bindandi fyrir stjórnvöld, en endurspegla vaxandi áhyggjur aðila í iðnaði sem og umhverfisverndarsinna um skort á nauðsynlegum hráefnum í skugga slæms efnahagsástands.
  Í skýrslu sem þingið gaf út er stefnt að aukinni sjálfbærni og aukinni samkeppnisfærni innan ESB. Í skýrslu þingsins er framkvæmdastjórnin hvött til að íhuga skattlagningu lands og vatnsnotkunar í íðnaði í von um að það leiði til hagkvæmari nýtingar auðlinda í Evrópu. Í skýrslunni er ekki tekin skýr afstaða til þess hvort ESB eigi að nýta svæði á borð við Norðurskautið, Barentshaf eða Grænland, í ljósi andstæðra sjónarmiða auðlindafyrirtækja annars vegar og umhverfisverndarsinna hins vegar.

þriðjudagur, 13. september 2011

Evrulausu löndin vilja aukin áhrif

  Evrulaus lönd innan Evrópusambandsins hittust formlega síðastliðinn mánudag til að ræða hvernig best væri að hafa áhrif á umræðuna um framtíð evrusvæðisins. Fundinn sátu ráðherrar þeir sem sjá um Evrópumál hjá Lettlandi, Litháen, Tékklandi, Ungverjalandi, Búlgaríu, Rúmeníu og Póllandi. Í ljósi áætlana um nánara efnahagssamstarf á evrusvæðinu, sem mun skapa tvískipt Evrópusamstarf, telja evrulausu löndin sig þurfa að koma að ákvarðanatöku um framtíð evrunnar þar sem hún sé ekki einkamál fárra heldur skipti máli fyrir öll lönd Evrópusambandsins. Tillögur landanna sjö um stjórn efnahagsmála verða lagðar fyrir á fundi leiðtogaráðsins í október næstkomandi.

Mega fljúga eftir sextugt

  Flugmönnum í Evrópu er heimilt að halda áfram að fljúga eftir 60 ára aldur, samkvæmt úrskurði Evrópudómstólsins. Dómurinn sagði stjórnvöldum aðildarríkja heimilt að setja ákveðnar takmarkanir gagnvart flugmönnum á þeim aldri, en þeim væri óheimilt að banna mönnum að fljúga sakir hás aldurs. Slíkt væri ólögmæt mismunun á grundvelli aldurs og gengi lengra en naugsynlegt væri til að tryggja öryggi í flugi.

mánudagur, 12. september 2011

Heilbrigðisútgjöld bólgna út vegna "óþarfra" aðgerða

  Samkvæmt nýrri rannsókn á heilbrigðiskostnaði í Evrópu, gefa læknar út of marga lyfseðla fyrir lyfjum og mæla með of mörgum skurðaðgerðum fyrir sjúklinga sína. Þetta er stór hindrun í vegi sparnaðaraðgerða í heilsugæslu og "félagslegrar nýsköpunar".
  Günther Leiner, skipuleggjandi árlegs evrópsks heilsuþings sem haldið verður í Austurríki, segir rannsókn sýna að fjórar af hverjum fimm bakaðgerðum í Þýskalandi séu óþarfar.

miðvikudagur, 7. september 2011

Stjórnarskrárdómstóll: Heimilt að grípa til björgunaraðgerða fyrir Grikkland

Stjórnarskrárdómstóllinn í Þýskalandi lagði í dag blessun sína yfir fyrri þáttöku landsins í björgunaraðgerðum til handa Grikklandi á vegum Evrópusambandsins. Hins vegar sagði í úrskurðinum að þýska þingið yrði að hafa meiri aðkomu að málum þegar kæmi að samþykktum á björgunaraðgerðum í framtíðinni. Fram kom að aðkoma þings að samþykktum á álagningu skatta og ákvörðunum um greiðslur úr ríkissjóði væri grundvallaratriði lýðræðislegra stjórnarhátta samkvæmt þýskri stjórnarskrá.
Niðurstaðan er í samræmi við spár flestra sérfræðinga, sem töldu að í framtíðinni yrðu svipaðar ákvarðanir að hljóta samþykki þingsins. Talið er að þessi þróun muni hægja á ákvarðanatöku Evrópusambandsins þegar kemur að viðbrögðum í efnahagsmálum gagnvart skuldakreppu aðildarríkja. Á hinn bóginn hefur verið skorið úr réttaróvissu og áætlanir um björgunaraðstoð munu því halda áfram í sínum farvegi.
EUObserver

Friðhelgi EÞM ekki bindandi fyrir landsrétt

  Evrópudómstóllinn hefur í nýlegum úrskurði sínum skýrt friðhelgi Evrópuþingmanna (EÞM) á þann veg að bein tengsl þurfi að vera á milli skoðana sem EÞM tjáir og starfa hans á þinginu.
  Í umræddu máli var EÞM sakaður um rangar ásakanir á hendur ítölskum lögreglumanni við skyldustörf, en hann hélt því fram að tími hafi verið falsaður þegar nokkrir ökumenn voru sektaðir fyrir að leggja ólöglega á meðan breytingar á bílastæðahúsi fóru fram. Evrópuþingið tók afstöðu með því að friðhelgi ætti við í tilviki þingmannsins, þar sem hann hafi haft hagsmuni kjósenda sinna að leiðarljósi. Ítalskir dómstólar báðu Evrópudómstólinn um útskýringar á lögfræðilegum álitaefnum varðandi ákvæði er lýtur að friðhelgi EÞM.

Spornað við landamæraeftirliti aðildarlanda

  Nýjar reglur eru í bígerð hjá framkvæmdastjórn ESB þar sem Schengen löndum verður óheimilt að takmarka frjálst flæði fólks án samþykkis framkvæmdastjórnarinnar. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir að Evrópuþingið öðlist aukin áhrif varðandi framkvæmd Schengen samningsins.
  Annars vegar gæti landamæraeftirlit verið leyft vegna fyrirsjáanlegra atburða, s.s. vegna heimsíþróttaviðburða eins og Ólympíuleika, en framkvæmdastjórnin gæti ásamt auknum meirihluta Schengen ríkja leyft upptöku landamæraeftirlits í allt að 6 mánuði. Hins vegar gæti landamæraeftirlit verið leyft vegna ófyrirsjáanlegra atburða, s.s. hryðjuverka eða farsóttar, en aðildarland gæti einhliða sett upp eftirlit í 5 daga og þyrfti eftir það samþykki fyrir áframhaldandi aðgerðum.

þriðjudagur, 6. september 2011

Evrópubúar geta ekki kosið í Sviss

  Kjósendur í svissnesku kantónunni Vaud höfnuðu um helgina tillögu sem hefðu gert erlendum íbúum að kjósa í sveitarstjórnarkosningum. Tillagan átti að heimila þeim erlendu ríkisborgurum að kjósa sem hefðu búið í Sviss í meira en 10 ár, þar af 3 ár í kantónunni Vaud. Hefði tillagan verið samþykkt hefði Vaud orðið fyrsta kantónan þar í landi til að veita erlendum ríkisborgurum kosningarétt á sveitarstjórnarstigi. Tveir þriðjuhlutar íbúa Vaud voru ekki tilbúnir til að aðskilja stjórnmálaleg réttindi í kantónunni og svissneskt ríkisfang.

Heildartala yfir síðuflettingar