miðvikudagur, 7. september 2011

Stjórnarskrárdómstóll: Heimilt að grípa til björgunaraðgerða fyrir Grikkland

Stjórnarskrárdómstóllinn í Þýskalandi lagði í dag blessun sína yfir fyrri þáttöku landsins í björgunaraðgerðum til handa Grikklandi á vegum Evrópusambandsins. Hins vegar sagði í úrskurðinum að þýska þingið yrði að hafa meiri aðkomu að málum þegar kæmi að samþykktum á björgunaraðgerðum í framtíðinni. Fram kom að aðkoma þings að samþykktum á álagningu skatta og ákvörðunum um greiðslur úr ríkissjóði væri grundvallaratriði lýðræðislegra stjórnarhátta samkvæmt þýskri stjórnarskrá.
Niðurstaðan er í samræmi við spár flestra sérfræðinga, sem töldu að í framtíðinni yrðu svipaðar ákvarðanir að hljóta samþykki þingsins. Talið er að þessi þróun muni hægja á ákvarðanatöku Evrópusambandsins þegar kemur að viðbrögðum í efnahagsmálum gagnvart skuldakreppu aðildarríkja. Á hinn bóginn hefur verið skorið úr réttaróvissu og áætlanir um björgunaraðstoð munu því halda áfram í sínum farvegi.
EUObserver

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Heildartala yfir síðuflettingar