miðvikudagur, 7. september 2011

Spornað við landamæraeftirliti aðildarlanda

  Nýjar reglur eru í bígerð hjá framkvæmdastjórn ESB þar sem Schengen löndum verður óheimilt að takmarka frjálst flæði fólks án samþykkis framkvæmdastjórnarinnar. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir að Evrópuþingið öðlist aukin áhrif varðandi framkvæmd Schengen samningsins.
  Annars vegar gæti landamæraeftirlit verið leyft vegna fyrirsjáanlegra atburða, s.s. vegna heimsíþróttaviðburða eins og Ólympíuleika, en framkvæmdastjórnin gæti ásamt auknum meirihluta Schengen ríkja leyft upptöku landamæraeftirlits í allt að 6 mánuði. Hins vegar gæti landamæraeftirlit verið leyft vegna ófyrirsjáanlegra atburða, s.s. hryðjuverka eða farsóttar, en aðildarland gæti einhliða sett upp eftirlit í 5 daga og þyrfti eftir það samþykki fyrir áframhaldandi aðgerðum.

  Schengen er eitt stærsta skref Evrópusambandsins í átt til Evrópuvæðingar þar sem 400 milljónir Evrópubúa geta ferðast án vegabréfs, en 25 ESB ríki auk Íslands, Noregs og Sviss eiga aðild að samkomulaginu. Talið er líklegt að tillögurnar munu njóta stuðnings í Evrópuþinginu. Mörg aðildarlönd eru talin vilja sporna gegn tilraunum Frakka, Þjóðverja, Ítala, Danmerkur og Hollands til að takmarka ferðafrelsi án vegabréfs. Þessi lönd munu þó efalaust veita harða mótspyrnu, með Frakkland og Þýskaland í fremstu víglínu, en löndin virðast í auknum mæli sniðganga ákvarðanatöku framkvæmdastjórnarinnar í Brussel.
The Guardian

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Heildartala yfir síðuflettingar