sunnudagur, 30. október 2011

Efnahagsmálastjóri fær aukin völd

  Efnahagsmálastjóri framkvæmdastjórnar ESB, Olli Rehn, fær aukin völd til að hafa eftirlit með ríkisfjármálastefnu aðildarríkjanna og umsjón með málefnum evrunnar, en stefnt er að aukinni miðstýringu frá Brussel í efnahagsmálum.
  Þetta er meðal þess sem samstaða náðist um á fundi leiðtogaráðs ESB í vikunni. Á fundinum var samþykktur rammi um endurfjármögnun banka, tap einkageira á skuldum Grikklands og stækkun björgunarsjóðs vegna evrunnar. Samþykkt var viljayfirlýsing um að efla hlutverk viðeigandi málefnastjóra við nánara eftirlit og aukna eftirfylgni með evrusvæðinu. Enn er óljóst hvað felst nákvæmlega í þessum auknum völdum, en talið er víst að efnahagsmálastjóri geti skorist í leikinn brjóti aðildarríki reglur um skuldir og fjárlagahalla.

föstudagur, 21. október 2011

Búlgaría og Ítalía toppa fjársvika rannsóknarlista ESB

  Búlgaría og Ítalía eru þau aðildarlönd, sem voru með hæsta málafjöldann hjá OLAF, rannsóknarskrifstofu fjársvika hjá ESB, fyrir árið 2010. Í skýrslu OLAF segir að uppspretta upplýsinga um möguleg fjársvik tengist fáeinum aðildarríkjum. Flestar rannsóknir snerta stofnanir ESB (139) og landbúnaðargeirann (117).
  Á árinu 2010 hafði OLAF 419 mál til meðferðar, þar af var 81 mál tengt Búlgaríu, 41 tengt Ítalíu og 37 tengd Belgíu. Belgía sker sig úr að því leyti að þar er að finna flestar stofnanir ESB. Búlgaría vermdi einnig toppsæti listans á síðasta ári. Mál tengd Svíþjóð voru 3, 1 tengt Finnlandi og ekkert tengt Danmörku.

fimmtudagur, 20. október 2011

Ný samgönguáætlun - Tengjum Evrópu

  Forseti framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso, kynnti í gær tillögu um að safna 50 milljörðum evra vegna verkefna á sviði samgangna, orku og fjarskipta  í Evrópu, með svokölluðum "verkefna skuldabréfum" (project bonds). Áætlunin nefnist Tengjum Evrópu og mun vera á fjárhagsáætlun ESB 2014-2020. Barroso segir áætlunina skapa hagvöxt og störf þegar til framtíðar er litið. Hann sagði mikilvægt að ESB leggi sitt af mörkum við að byggja upp vegi, járnbrautateina, leiðslur og strengi sem séu mikilvæg íbúum og fyrirtækjum í Evrópu.

miðvikudagur, 19. október 2011

Fáir bjóða leyfislausum innflytjendum læknisaðstoð

  Innflytjendur án landvistar-, búsetu- eða atvinnuleysis þurfa að greiða fyrir læknisþjónustu í flestum aðildarríkjum ESB og það getur teflt lífi þeirra í hættu. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu frá Mannréttindastofu Evrópu. Þetta fólk er í áhættuhópi sem oft býr við slæmar vinnu- eða húsnæðisaðstæður. Innflytjendur óttast brottvísun úr landi leiti þeir sér læknisaðstoðar á spítala.

sunnudagur, 16. október 2011

EÞM vilja rannsóknarheimildir

  Evrópuþingið vinnur nú að því að öðlast auknar rannsóknarheimildir til að kalla til málefnastjóra úr framkvæmdastjórn ESB, embættismenn og stjórnmálamenn aðildarríkja til að svara spurningum er lúta að brotum á evrópskri löggjöf.

laugardagur, 15. október 2011

Gagnrýna landbúnaðarumbætur

  Nokkurrar óánægju gætir meðal þingmannahópa innan Evrópuþingsins og meðal hagsmunaaðila með nýjar landbúnaðarumbætur sem kynntar voru í vikunni. Bretland hefur lýst því yfir að ekki sé um róttækar umbætur að ræða og Frakkland segir umhverfisvæna hluta reglnanna of flókinn og endurspegli ekki efnahagslegan raunveruleika. Hagsmunahópur bænda, Copa-Cogeca, segir tillögurnar of bitlausar til þess að auka arð og framleiðni í matvælaframleiðslu. Þá hafa umhverfissamtök lýst yfir óánægju með umhverfisvænar aðgerðir tillagnanna, sem þau segja ganga of skammt. Samtök ungra bænda eru þó fremur ánægð með tillögurnar, auk bænda í dreifbýli sem fá hærri styrki.

föstudagur, 14. október 2011

Tekist á um breytingar á stofnsáttmála

  Átakalínur eru teknar að skýrast á milli þeirra sem styðja breytingar á stofnsáttmála Evrópusambandsins til að styrkja evrusvæðið og þeirra sem eru því andsnúnir, í aðdraganda leiðtogafundar ESB síðar í mánuðnum. Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, Joaquín Almunia, sem einnig er samkeppnismálastjóri, hefur nú lýst sig andvígan slíkum breytingum. Þetta gengur þvert á yfirýsingar forseta framkvæmdastjórnarinnar, José Manuel Barroso, um að hann væri opinn fyrir breytingum á sáttmálanum.

fimmtudagur, 13. október 2011

Vegvísir ESB út úr kreppunni

  Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jose Manuel Barroso, hefur kynnt áætlun í fimm liðum til lausnar á efnahagsvanda Evrópusambandsins.
  Barroso sagði á Evrópuþinginu að nauðsynlegt væri að leysa skuldavanda einstakra ríkja með samræmdri áætlun og styrkja bankana, þar sem tengsl væri á milli þessarra þátta. Hann kallaði eftir stuðningi leiðtoga við þessa björgunaráætlun, sem tekin verður fyrir til afgreiðslu á leiðtogafundi í Brussel þann 23. október n.k.

miðvikudagur, 12. október 2011

Reding: Ný kaupalög svar við kreppunni

  Ný kaupalög er fjalla um sölu vöru og þjónustu á milli landa, verða kynnt í dag af dómsmálastjóra ESB, Viviane Reding, sem segir reglurnar framfaraskref við lausn efnahagsvanda Evrópusambandsins. Hún segir reglurnar örva viðskipti, auka hagvöxt og atvinnu. Ýmis samtök atvinnurekenda berjast gegn tillögunum, sem þau segja að verði smáfyrirtækjum fjötur um fót.
  Markmið reglnanna er að örva sölu vöru og þjónustu á milli landamæra með því að skýra innheimtureglur sem gilda í milliríkjaviðskiptum. Fyrirtæki geti lágmarkað lögfræðikostnað við að setja sig inn í 27 mismunandi lagaramma með því að velja þann 28. sem ESB setur.

Landbúnaðarstyrkir færast austar innan ESB

  Bændur í Evrópulöndum eins og Frakklandi gætu átt von á að styrkir til þeirra minnki um allt að 7%, þar sem fjármagni verður í auknu mæli beint til Mið- og Austur-Evrópuríkja. Þetta segir málefnastjóri landbúnaðarmála og dreifbýlisþróunar í ESB, Dacian Cioloş, í samtali við fréttavefinn EurActiv um endurbætur á hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB fyrir árin 2014-2020. Búist er við óbreyttu hlutfalli fjár til landbúnaðarmála af fjárlögum ESB og heitir Cioloş nýjum aðildarríkjum því að fá "sanngjarnari" hlut af heildarfé því sem varið er til landbúnaðarmála.

þriðjudagur, 11. október 2011

Nóbelsverðlaunahafar: Evrópa þarfnast nánari efnahagssamruna

  Bandaríkjamennirnir tveir, sem unnu til Nóbelsverðlaunanna í hagfræði í gær, segja engin einföld svör við skuldakreppunni í Evrópu, en lögðu áherslu á að aukin samvinna í ríkisfjármálum aðildarríkja ESB geti komið í veg fyrir hrun evrunnar.
  Þeir Christopher Sims og Thomas Sargent, báðir 68 ára að aldri, voru verðlaunaðir fyrir rannsóknir sínar á 8. og 9. áratugnum er vörðuðu orsakasamhengi á milli efnahagslífs og stefnu stjórnvalda.

mánudagur, 10. október 2011

Pólsku kosningarnar: Sigur Tusks góður fyrir ESB

   Pólski forsætisráðherrann, Donald Tusk, fagnaði sigri í þingkosningum í gær þegar samsteypustjórn hans hélt meirihluta sínum. Tusk er fyrsti forsætisráðherrann til að sitja í tvö kjörtímabil frá falli kommúnismans árið 1989. Stjórnmálaskýrendur segja sigur Tusks vera góðan fyrir Evrópusambandið. Pólland fer nú með formennsku innan ESB og hefur Tusk rekið einarða stefnu gegn því sem hann kallar "nýja bylgju efasemda um evrópusamruna".
  Flokkur Tusks, Borgaralegur vettvangur, var sigurvegari kosninganna með um 40% atkvæða en flokkur Jaroslaw Kaczynski, Lög og réttur, fékk 30%. Franskur evrópuþingmaður telur sigurinn einkar mikilvægan í hinum erfiðu tímum í efnahagsmálum, þar sem kjósendur hafi verðlaunað ríkisstjórn Tusks fyrir góðan árangur. Hagvöxtur hefur verið síðustu 4 ár í landinu, sem hefur meðal annars orsakast vegna innstreymis tekna úr sjóðum ESB og virkum neytendum á risastórum innanlandsmarkaði.

Heildartala yfir síðuflettingar