föstudagur, 14. október 2011

Tekist á um breytingar á stofnsáttmála

  Átakalínur eru teknar að skýrast á milli þeirra sem styðja breytingar á stofnsáttmála Evrópusambandsins til að styrkja evrusvæðið og þeirra sem eru því andsnúnir, í aðdraganda leiðtogafundar ESB síðar í mánuðnum. Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, Joaquín Almunia, sem einnig er samkeppnismálastjóri, hefur nú lýst sig andvígan slíkum breytingum. Þetta gengur þvert á yfirýsingar forseta framkvæmdastjórnarinnar, José Manuel Barroso, um að hann væri opinn fyrir breytingum á sáttmálanum.

  Almunia er í hópi þeirra sem segja að ekki sé nægilegur pólitískur vilji fyrir hendi hjá aðildarríkjunum 27 til að koma málinu í höfn. Því séu breytingar varasamar. Í Leiðtogaráðinu hafi ákveðin lönd í upphafi kreppunnar ekki áttað sig á pólitískum alvarleika hennar og reynt um of á eigin spítur að leysa málin. Talsmaður samtaka sem kalla sig Vini Evrópu, Etienne Davignon, segir leiðtoga vera að átta sig á hve samtvinnaðir þeir séu við að gæta þjóðarhagsmuna annars vegar bandalagshagsmuna hins vegar. Atkvæðagreiðslan á þriðjudag, þar sem þing Slóvakíu hafnaði björgunarpakka ESB tilhanda Grikkjum, hafi verið gott dæmi um hnignun samstöðunnar.
  Slóvneski Evrópuþingmaðurinn Alojs Peterle, fyrrum utanríkisráðherra og meðlimur Framtíðarráðstefnu Evrópu, bendir á að samþykkt Lissabon sáttmálans hafi tekið 8 ár og því telur hann að halda eigi sig við gildandi sáttmála. Ítalski EÞM, Roberto Gualtieri, segist ekki sammála þeim málflutningi Þjóðverja að breyta þurfi sáttmálanum til að taka upp evrópsk skuldabréf. Evrópa þurfi þó nýjan sáttmála, en hann sé háður lögmæti í öllu ferli sem að honum lyti - annars yrði honum hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu líkt og gerðist með Evrópsku stjórnarskrána.
  Þýskaland hefur beitt sér sérstaklega fyrir hugmyndinni um breytingar á stofnsáttmálanum, sem þeir segja að sé þáttur í lausn á því að hægt sé að framfylgja fjárlögum og forðast fjármálakrísur. Utanríkisráðherra Þjóðverja, Guido Westerwelle, hefur lýst yfir vilja til endurbóta á stofnsáttmálanum á ríkjaráðstefnunni 2012.
EurActiv

Nánar
EurActiv: Parliament hails Barroso's eurozone plan
Evrópufréttir: Merkel vill breytingar á sáttmála

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Heildartala yfir síðuflettingar