sunnudagur, 3. júlí 2011

Björgunaraðstoð í höfn eftir samþykkt niðurskurðartillagna

  Meirihluti gríska þingsins hefur samþykkt umdeildar niðurskurðartillögur og tillögur um einkavæðingu, í því augnamiði að tryggja fjárhagsaðstoð frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og forða landinu frá yfirvofandi gjaldþroti. Í sameiginlegri yfirlýsingu frá forseta framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso, og forseta leiðtogaráðsins, Herman Van Rompuy, segir að Grikkland hafi sýnt ábyrgð innanlands við afar erfiðar aðstæður og að skilyrði séu nú fyrir hendi
til að hægt sé að taka ákvörðun um greiðslu fjárhagsaðstoðar til landsins og til að flýta fyrir öðrum björgunarpakka er lýtur að bönkum og fjármálastofnunum.
  Hlutabréf hækkuðu í kjölfar frétta um að gjaldþroti hafi verið afstýrt, þrátt fyrir mikla andstöðu almennings. Fjárfestar hafa þó áhyggjur af því hvort Grikkir geti framkvæmt niðurskurðaraðgerðirnar í ljósi mikillar andstöðu. Margir hagfræðingar telja enn hættu á að Grikkland verði gjaldþrota á næstu fimm árum, en skuldir landsins nema 340 billjónum evra eða 150% af landsframleiðslu.
  Angel Gurria, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), hefur sagt að núverandi ástand á Grikklandi geti ekki haldið áfram, þar sem allir fjármunir grískra skattgreiðenda fari til kröfuhafa. Grikkir verði að hafa svigrúm til að vinna að uppbyggingu efnahagslífs síns. Aukinnar óánægju gætir meðal stjórnmálamanna á Grikklandi með Evrópusambandið og framgöngu Þjóðverja. Óánægjuraddirnar telja að aðgerðir þær sem Þýskaland hefur stutt, verndi banka og skuldaeigendur.
EurActiv

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Heildartala yfir síðuflettingar